Sextán ára gamall drengur var sóttur í Flensborg í gær af tveimur óeinkennisklæddum lögregluþjónum og hefur hann verið í haldi lögreglunnar síðan. Í dag stendur til að fylgja honum og föður hans úr landi til Kólumbíu. Íslensk fósturmóðir drengsins telur að drengnum sé mikil hætta búin verði hann fluttur úr landi, ofbeldi af hálfu föðurs hans, glæpagengi eða dauði bíði hans í heimalandinu.
„Oscar er yndislegur drengur, hvers manns hugljúfi. Fallegur að utan sem innan. Hann er einn þægilegasti unglingur sem ég hef kynnst. Allir sem kynnast honum elska hann. Hann hefur búið hjá okkur með samþykki og vitneskju barnaverndar, útlendingastofnunar og lögreglunnar frá því í maí. Þar á undan var hann alla daga hjá okkur til að verða miðnættis.
Við sendum inn óskir í júní um að fylla út fósturumsóknarpappíra og að fá þær upplýsingar sem fylgja því ferli. Við fengum ekkert svar. Hann er sem sagt búinn að vera hjá okkur en við ekki með neinn rétt á einu eða neinu. Hann hefur alfarið verið upp á okkur kominn og við séð um hann eins og hann væri okkar eigin sonur, “ segir Sonja Magnúsdóttir í samtali við DV.
Oscar Andres Florez Bocaneg, 16 ára drengur frá Kolumbíu, hefur búið hjá henni og eiginmanni hennar, Svavari Jóhannssyni, eigenda Fitness Sport, frá því í vor og hafa þau haft fullan hug á að verða fósturforeldrar hans. Drengnum kynntist fjölskyldan í gegnum son hjónanna en þeir eru bekkjarbræður í Flensborg.
„Hjarta mitt er í molum, ég er með barn í höndunum sem fékk hugrekki til að standa upp gegn ofbeldismanninum föður sínum. Oscar öðlaðist trú á því að íslensk yfirvöld hjálpuðu honum, en þau héldu bara áfram að beita hann ofbeldi. Það má sem sagt berja börn sem ekki hafa íslenska kennitölu,“ segir Sonja í viðtali við Morgunblaðið í dag. Segir hún íslensk barnaverndaryfirvöld og lögreglu hafa vitneskju um ofbeldið sem faðir Oscars beitir hann en ætla eigi að síður að senda hann úr landi.
Í viðtalinu við Morgunblaðið segir Sonja sögu Oscars, sem kom hingað til landsins fyrir tveimur árum ásamt föður sínum og tveimur systrum. Önnur þeirra hefur síðan flutt aftur heim og fer þar huldu höfði undir öðru nafni.
„Hann hefur verið meira og minna hjá okkur í heilt ár og að lokum var hann farinn að vera hérna fram undir miðnætti og þá fór mig að gruna að ekki væri allt með felldu heima hjá honum, hann var greinilega logandi hræddur við að fara þangað. Hann kom hérna ósofinn og svaf hérna þrjá tíma á dag, hann sagði okkur ekkert og við héldum bara að hann hefði áhyggjur af því að það ætti að senda fjölskylduna hans heim.“
„Okkur var að lokum tekið að gruna að Oscar væri beittur andlegu ofbeldi, við vorum að reyna að hjálpa fjölskyldunni og þar kom að við sáum að faðir hans gerði grín að honum og níddist á honum,“ segir Sonja og nefnir dæmi um miskunnarleysi föðurins. „Hann gerði grín að honum, sagði að hann væri aumingi og enginn vildi hann,“ rifjar Sonja upp og segir enn fremur frá því þegar faðirinn sparkaði af alefli, nánast vítaspyrnusparki, í son sinn í anddyri hótels í Hafnarfirði í viðurvist fjölda vitna.
Lögreglan var kölluð á vettvang og segir Sonja að lögreglan hafi rætt við föður Oscars og lögregla og barnaverndarnefnd lofað Oscari að málið yrði skoðað. Sonja hafi fengið leyfi þeirra og Útlendingastofnunar til að fara með Oscar heim með sér og hann hafi búið hjá fjölskyldunni síðan í maí.“
Í júní óskuðu hjónin eftir því skriflega til barnaverndanefndar að fá pappíra til umsóknar um að verða fósturforeldrar Oscars.
„Því var ekki svarað. þetta er svo galið. Og það sem stendur upp úr af okkar hálfu í þessu máli er að það má berja barn á Íslandi ef það er ekki með íslenska kennitölu,“ segir Sonja.
Fjölskyldan hafði samband við Vilhjálm Hans Vilhjálmsson lögmann sem lagt hefur fram beiðni um frestun flutnings Oscars úr landi. Í viðtalinu á Mbl kemur fram að yfirvöld í Kólumbíu hafa gefið það út að þau geti ekki tryggt Oscari hinum unga nokkra vernd.
„Vilhjálmur lögmaður lagði inn kæru í byrjun júlí á hendur föður hans fyrir Oscars hönd vegna ofbeldisins sem hann hefur verið beittur. Hann hefur farið í skýrslutöku, og það er opin kæra og opið barnaverndarmál í gangi. Það er algerlega óumdeilanlegt að hann hafi verið beittur ofbeldi af föður sínum bæði andlegu og líkamlegu. Hann hefur fengið ítarlegt greiningarviðtal upp á Barnaspítala þar sem þessar grunsemdir komu skýrt fram ásamt fleiri áföllum. Þar var lagt að hann kæmist undir hendur læknis sem gæti haft eftirlit með honum,“ segir Sonja í samtali við DV.
Eins og fram kemur í Morgunblaðinu hefur Vilhjálmur lagt fram beiðni um frestun flutnings Oscars úr landi. „Faðir hans beitti hann miklu ofbeldi svo sem áður hefur verið upplýst. Fór svo að faðir afsalaði sér forsjá hans. Brottvísun hans nú fæli í sér að barnið væri gegn vilja forsjáraðila fært til annars lands. Barnavernd Hafnarfjarðar hefur ekki samþykkt brottflutning barnsins sem það fer með forsjá yfir,“ skrifar Vilhjálmur Vilhjálmsson lögmaður fyrir hönd Oscars.
„Hér með er farið fram á að brottvísun barnsins verði tafarlaust frestað og málið endurskoðað í samræmi við fyrri bréf undirritaðs.“
Faðirinn rak veitingahús í Kólumbíu og þarfnast slík starfsemi ekki einvörðungu leyfa frá heilbrigðiseftirliti og öðrum opinberum stofnunum heldur þarf einnig að greiða svokölluð verndargjöld fil mafíunnar.
„Þarna eru glæpagengi og til er plagg frá aðalritara friðarmálaráðuneytis Kólumbíu sem staðfestir að ráðuneytið geti ekki verndað þessa fjölskyldu og þau eru þar nafngreind,“ segir Sonja og bætir því við að faðir Oscars hafi greitt verndargjöldin meðan hann gat. Þegar hann gat ekki lengur greitt, hafi mafían sett honum þá afarkosti að annaðhvort greiddi hann eða sonurinn Oscar yrði tekinn af honum og hann annaðhvort drepinn eða gerður út sem barnaskæruliði í undirheimastríði kólumbískra eiturlyfjagengja.
„Þetta er svo lygilegt að maður veit varla hvað maður á segja, þetta er bara eins og maður sé að segja frá einhverri bíómynd,“ segir Sonja.
Segir hún Oscar hafa verið kvíðinn frá því í ágúst því daglega átti hann von á að lögreglan kæmi að sækja hann. „Í lok ágúst var föðurnum tilkynnt að þeim yrði vísað úr landi með átta tíma fyrirvara, þeir ættu bara að vera með tilbúnar pakkaðar töskur. Og síðan í ágúst er þetta hreinlega búið að vera helvíti á jörðu, hver dagur snýst um hvort lögreglan sé að fara að banka upp á á miðnætti,“ segir Sonja. Segir hún að henni hafi verið sagt að lögreglan myndi ekki handtaka börn hjá lækni eða í skóla.
„Þannig að ég skutlaði honum í skólann í [gær]morgun þrátt fyrir að ég hefði einhverja vonda tilfinningu varðandi daginn. Svo mæta tveir óeinkennisklæddir lögreglumenn í skólann til hans, í Flensborg, þegar hann er á klósettinu og þeir sækja hann inn á klósett,“ segir Sonja.
„Svo segja allar þessar stofnanir bara, sama hver það er, „ja, ég er bara að framfylgja skipunum, ef ég fæ boð um eitthvað annað breytist það“, allir eru að firra sig ábyrgð og að lokum tekur enginn ábyrgð á málinu,“ heldur Sonja áfram.
Lögreglan hafi svo hringt í hana og tilkynnt henni að Oscar sé í haldi hennar. Er henni tjáð að hún geti fengið að tala við drenginn en ekki hitta hann. „Hann kallar mig íslensku mömmuna sína,“ segir Sonja.
Segir hún að til standi að flytja þá feðga út á flugvöll klukkan 13 í dag, þriðjudag.