fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Reykjavíkurborg viðurkennir mistök og endurskoðar umdeilda ákvörðun

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 15. október 2024 16:30

Hin umdeilda lóð við Njarðargötu 61 í Reykjavík. Mynd: Skjáskot/Já.is.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og DV greindi frá nýlega skapaðist nokkurt uppnám meðal íbúa í námunda við lóðina að Njarðargötu 61 í miðborg Reykjavíkur í kjölfar deiliskipulagsbreytingar þar sem samþykkt var að leyfa byggingu þriggja hæða fjölbýlishúss, með allt að átta íbúðum, á lóðinni. Tveir íbúar í nærliggjandi húsum lögðu fram sitt hvora kæruna vegna breytingarinnar til úrskurðarnefndar umhverfis-, og auðlindamála á þeim grundvelli að þeim hefði aldrei verið kynnt breytingin í grenndarkynningu. Kærunum var vísað frá á þeim grundvelli að þær hefðu borist of seint. Reykjavíkurborg hefur hins vegar viðurkennt að mistök hafi verið gerð í grenndarkynningu og samþykkt hefur verið að afturkalla deiliskipulagsbreytinguna og taka hana fyrir að nýju.

Allt í háaloft eftir íbúðarkaup í miðbænum

Eins og lesa má í fyrri fréttum af málinu komu íbúarnir sem kærðu málið af fjöllum þegar þeim varð ljóst að leyft hefði verið að byggja fjölbýlishús á umræddri lóð. Var fullyrt í annarri kærunni að fleiri íbúar í nágrenninu hefðu ekki verið meðvitaðir um þetta.

Uppnám meðal íbúa í miðbænum

Íbúarnir sem lögðu fram kærurnar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fullyrtu að þeim hefði aldrei verið kynnt deiliskipulagsbreytingin. Í ljósi þessa sendi DV fyrirspurn til Reykjavíkurborgar vegna málsins og svar barst fyrr í dag. Fyrirspurnin var í fjórum liðum.

Grenndarkynning

Spurt var hvort umrædd breyting á deiliskipulagi hafi verið grenndarkynnt og þá hvernig og hvort hægt væri að fullyrða að sú kynning hafi verið framkvæmd með fullnægjandi hætti í ljósi kæranna. Einnig var spurt hvort að breytingin hafi verið kynnt annars staðar en í Stjórnartíðindum, þar sem hún var kynnt. Sömuleiðis var spurt hvort kæmi til greina að kynna slíkar breytingar á deiliskipulagi víðar en í Stjórnartíðindum. Loks spurði DV hvort, í ljósi viðbragða íbúa í næstu húsum við byggingarreitinn, kæmi til greina að kynna deiliskipulagsbreytinguna upp á nýtt í nýrri grenndarkynningu og að leita einhverja leiða til að þessi breyting og fyrirhugaðar framkvæmdir sem hún heimilar fari fram í sem mestri sátt við íbúa í næsta nágrenni við byggingarreitinn á Njarðargötu 61.

Í svari umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar kemur fram að vegna mistaka hafi ekki öllum nágrönnum sem áttu hagsmuna að gæta borist grenndarkynningin. Deiliskipulagsbreytingin hafi því verið afturkölluð á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa í síðustu viku en verði tekin fyrir að nýju og ný grenndarkynning muni fara fram.

Barst ekki öllum

Í svari borgarinnar segir:

„Atvik málsins eru þau að breyting á deiliskipulagi reits 1.181.3, Lokastígsreits 4, vegna lóðarinnar nr. 61 við Njarðargötu, var grenndarkynnt í apríl á þessu ári. Engar athugasemdir bárust og var deiliskipulagsbreytingin í kjölfarið samþykkt af skipulagsfulltrúa með embættisafgreiðslu þann 23. maí 2024. Auglýsing nr. 664/2024, um breytingu á deiliskipulagi birtist í B-deild Stjórnartíðinda þann 3. júní 2024. 

Við nánari skoðun kom í ljós að mistök urðu við útsendingu grenndarkynningarinnar sem leiddu til þess að kynningin barst ekki öllum þeim nágrönnum sem eru taldir geta átt hagsmuna að gæta af breytingunni. Því var samþykkt skipulagsfulltrúa á fyrrnefndri deiliskipulagsbreytingu afturkölluð á afgreiðslufundi þann 10. október.“

Tekin fyrir að nýju

Í svarinu er vitnað til fundargerðar fundarins. Í fundargerðinni segir meðal annars:

„Í breytingunni sem lögð er til felst breyting á byggingarreit Njarðargötu 61 svo unnt verði að byggja 3 hæðir og ris á lóðinni með allt að 8 íbúðum. Núverandi stigahús víkur ásamt geymsluskúr og nýtt stigahús með lyftu er fellt inn í kropp hússins í stað þess sem teygir sig í norðvestur átt í dag, byggingarmagn eykst og nýtingarhlutfall hækkar. Deiliskipulagsbreytingin öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 3. júní sl., en þar sem misfórst að senda grenndarkynningu á hagsmunaaðila að Lokastíg 25, 26 og 28 er lagt til að málið verði endurvakið og að samþykktin falli úr gildi, sbr. minnisblaði lögfræðideildar skrifstofu stjórnsýslu og gæða, dags. 10. október 2024.

Samþykkt deiliskipulagsbreytingar felld úr gildi með vísan til framlagðs minnisblaðs.“

Afturköllun deiliskipulagsbreytingarinnar var kynnt með auglýsingu í Stjórnartíðindum þann 11. október síðastliðinn. Saga breytingarinnar er hins vegar ekki á enda hún verður tekin fyrir að nýju, væntanlega á næsta afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa sem fram fer á morgun og í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn DV kemur fram að á fundinum verði líklega tekin ákvörðun um nýja grenndarkynningu:

„Stefnt er að því að hefja nýja grenndarkynningu á næstu dögum. Gert er ráð fyrir að ákvörðun um grenndarkynningu verði tekin fyrir á afgreiðslufundi Skipulagsfulltrúa á morgun.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Lögfræðingur segir lögregluna á Suðurnesjum hafa gert ólöglega húsleit á heimili hans – „Ég er reiður“

Lögfræðingur segir lögregluna á Suðurnesjum hafa gert ólöglega húsleit á heimili hans – „Ég er reiður“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Kirkjugarður Hafnarfjarðar að breytast í bílakirkjugarð

Kirkjugarður Hafnarfjarðar að breytast í bílakirkjugarð
Fréttir
Í gær

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Í gær

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið
Fréttir
Í gær

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli
Fréttir
Í gær

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar