Gert var fundarhlé á fundi borgarstjórnar í dag eftir að Dóra Björt Guðjónsdóttir, fulltrúi Pírata, brast í grát í umræðum. Umræðurnar snerust um tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um deilibíla.
Sandra Hlíf Ocares, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins var frummælandi að tillögunni sem lítur að því að vísa því til umhverfis og skipulagssviðs að bæta aðgengi að deilibílum í öllum hverfum borgarinnar. Einnig að veita þeim aðgang að bílastæðahúsum til að ýta undir notkun þeirra. Bæði Dóra Björt og Sandra sjálf höfðu gert breytingartillögur við tillöguna og var málið nokkuð snúið þess vegna.
Sagði Sandra að þó að Reykjavík væri eina sveitarfélagið sem hefði búið sér til reglur um deilibíla hefði lítið gerst í þeim efnum. Búið væri að tala nóg, nú þyrfti að fara að sjást einhverjar aðgerðir.
Tók Dóra þá til máls og sagði að vinna væri í gangi, það er að verkfræðistofa væri að störfum við að koma með tillögur um hvernig liðka ætti fyrir deilibílakerfi. Þegar hafi deilibílaleigur verið reknar í Reykjavík.
Hún sagðist vera jákvæði í garð tillögu Söndru en það væri ekki æskilegt á þessum tímapunkti að samþykkja þann hluta hennar sem lýtur að bílastæðahúsum þegar tillögur verkfræðistofunnar liggja ekki fyrir.
Steig þá Sandra aftur í pontu, og var frekar heitt í hamsi. Sagði hún það merkilega tilviljun að verkfræðistofan hefði skilað inn minnisblaði til umhverfis og skipulagssviðs núna, sem hefði verið gert fyrir rúmu ári síðan. Málið hefði stöðvast hjá borgarfulltrúunum á sínum tíma en nú sé komin hreyfing á málið.
„Mér finnst svo ótrúlegt að það sé ekki bara hægt að fagna því og samþykkja þessa tillögu, komm on,“ sagði hún með þjósti og að það ætti ekki að fara í einhvern sandkassaleik um hver lagði fram tillöguna og hvenær. „Mér finnst þetta ódýr pólitík.“
Sagði Dóra þá að það væri rétt að það væri nokkur tími síðan minnisblaðið hefði verið unnið. En skipulagðir séu fundir núna í haust með aðilum á markaðinum. Reifaði hún svo feril tillögunnar og breytingartillögunnar og samskipti við Söndru.
„Mér finnst ekki alveg sanngjarnt að vera vænd um eitthvað sem ég hef ekki gert neitt rangt í. Ég hef ekki gert neitt annað en að reyna að nálgast borgarfulltrúann og reyna að styðja við hans verk og reyna að sameinast um hluti sem að við gætum sannarlega samþykkt hér í þessum sal,“ sagði Dóra í andsvörum.
Atvikið sést þegar 6 tímar og 25 mínútur eru liðnar.
Ítrekaði Sandra þá spurningu sína um hvers vegna sé ekki bara hægt að samþykkja tillögu sína. „Að það hafi verið lausnin að það þyrfti að sameinast um hana. Það er ekki það oft sem tillögur frá minnihlutanum eru samþykktar,“ sagði hún.
Aftur svaraði Dóra í andsvörum og las upp sína breytingartillögu sem væri keimlík upprunalegu tillögu Söndru. En aftur ítrekaði hún efasemdir um breytingartillögu Söndru, það er hvað varðar bílastæðahús. Einnig sagði hún að í tvígang hefði fulltrúi Sjálfstæðisflokksins frestað sinni tillögu og ekki væri hægt að haga starfi umhverfis og skipulagsráðs samkvæmt því.
Eftir nokkuð skraf, þar sem meðal annars stigu í pontu Líf Magneudóttir, fulltrúi VG, og Alexandra Briem, fulltrúi Pírata, kom Sandra aftur í pontu og beindi spjótum sínum að Dóru.
„Ég verð nú að kalla borgarfulltrúann Dóru Björt Guðjónsdóttur út með það. Ég kem með þessa tillögu, hún var lögð fyrir í byrjun september. Ég veit að rekstraraðilar fengu beiðni um að mæta á fund í lok september. Þetta er nú ekki lengra skipulag en það, að það sé svona ofboðslega erfitt að ná þessu fólki að borðinu. En ef borgarfulltrúanum líður betur með það að breyta tillögunni, að vísa henni öðruvísi og taka út bílastæðahúsin þá svo verði það. Ég bara fagna því að eitthvað sé að gerast í þessum málum. Það sem er búið að liggja fyrir lengi með þessar tillögur og að ákveðnu leyti sé verið að henda starfsfólki Samgönguskrifstofu undir rútuna með það að hafa ekki vitað af þessu minnisblaði sem er búið að liggja fyrir síðan 26. júní 2023,“ sagði Sandra.
Að lokum óskaði Dóra Björt eftir að fá að koma að skilaboðum í gegnum athugasemd og það var þá sem hún brast í grát.
„Ég fór af stað í september og ætlaði að hjálpa þessum borgarfulltrúa að gera tillögu sem við gætum sameinast um á þeim tímapunkti. Nú er ég vænd um það að stunda óheiðarlega pólitík. Mér sárnar það, ég verð bara að segja það. Við getum bara dregið þessa málsmeðferðartillögu til baka og við getum bara samþykkt þetta til þess að strjúka egói þessa ágæta borgarfulltrúa. Ég sit ekki undir þessari vitleysu,“ sagði hún. Var í kjölfarið tekið stutt fundarhlé.