Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar, segir slæmt að kjósa til Alþingis á þessum árstíma og með svo stuttum fyrirvara. Óttast hann að kosningarnar muni snúast um innantóm slagorð á borð við „Er ekki bara best að kjósa Framsókn?“
„Ég er ekki hissa á því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi gefist upp á VG eftir landsfundinn og reyndar þróun undanfarna mánuði og kannski misseri,“ segir Benedikt í færslu á samfélagsmiðlum í kvöld. Það hafi verið áhugavert að fylgjast með atburðarás undanfarinna daga.
„Í stjórnmálum, eins og auðvitað í lífinu öllu, er mikilvægt að gagnkvæmt traust ríki. Þótt VG og Sjálfstæðisflokkurinn ættu að vera ólíkastir flokka hafa flokkarnir undanfarin ár sameinast í íhaldsseminni,“ segir Benedikt. Meginköllun gamaldags stjórnmálamanna sé að hægja á þróun, jafn vel þó hún sé til góðs. „Í Íslandi getum við nefnt andstöðuna við Evrópusambandið, tregðu til þess að gera landbúnað að alvöru atvinnugrein, án afskipta ríkisins, eðlilega gjaldtöku í sjávarútvegi þar sem þjóðin nýtur afraksturs af sameiginlegri auðlind, en ekki örfáir útvaldir, andstaðan við að taka upp alvöru gjaldmiðil og margt fleira.“
Að mati Benedikts var það traust eða jafn vel vinátta Katrínar Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssonar sem olli því að ríkisstjórnin entist jafn lengi og raun ber vitni. Þetta traust hafi horfið þegar Guðmundur Ingi Guðbrandsson tók við formennsku hjá Vinstri grænum og síðan breyst í vantraust þegar Svandís Svavarsdóttir var kosin formaður.
„Eitt af því sem skiptir mestu máli í farsælu pólitísku samstarfi er lagni í mannlegum samskiptum. Hún er ekki öllum gefin,“ segir Benedikt.
Þá nefnir Benedikt að þessi tími sé ekki heppilegur til þess að kjósa og tíundar ástæðurnar. Veðurfarið geti haft sitt að segja, sérstaklega í dreifbýlinu. Ekki sé heppilegt að hafa svo skamman tíma til þess að ganga frá fjárlögum, þó að „embættismannafjárlög“ séu ekki endilega óheppileg fyrir þjóðina þar sem þeir séu ólíklegri til þess að hampa sérhagsmunum en stjórnmálamenn. Þá sé fyrirvarinn svo stuttur að erfitt sé að halda prófkjör.
„Uppstilling á lista hefur bæði kosti og galla. Hún gefur kost á því að stilla upp sterkum listum með góðum kandídötum. Til dæmis er mikill skortur á þingmönnum núna sem hafa inngrip í efnahagsmál, en offramboð á froðusnökkum sem stöðugt klifa á því að allt sé ómögulegt hjá andstæðingunum og hlaupa upp í hverju máli til þess að sanna að þeir séu hneykslaðri en allir aðrir,“ segir Benedikt. „Hættan við uppstillingu er að þá er líklegra en ella að í efstu sætin veljist vildarvinir flokkseigenda, án tillits til þess hvort þeir hafa eitthvað til málanna að leggja eða ekki.“
Benedikt segir skort á þingreynslu galla á núverandi þingi. Það sé þó líka slæmt þegar fólk telji að það eigi þingsætin og hleypi engum öðrum að.
„Utan frá séð eru viðbrögð forystu VG og Samfylkingar við þingrofinu undarleg og sýna ekki kalt mat á stöðunni. Núverandi ástand kallaði síst af öllu á stjórnarmyndunarviðræður um ekki neitt,“ segir Benedikt. „Verst af öllu er þó að líklega munu kosningarnar á endanum kannski fyrst of fremst snúast um innantóm slagorð. Við þekkjum: „Er ekki bara best að kjósa Framsókn?“ og eigum eftir að kynnast betur: „Ein Volk, ein Führer!“ eða hvað það nú er. Það er mjög erfitt að halda sig við að almannahagsmunir eiga að vera framar sérhagsmunum, en það er farsælasta stefnan.“