Margir búast við því að Sanna verði í leiðtogahlutverki hjá Sósíalistum í komandi kosningum en sjálf hefur hún gefið það út að hún ætli í framboð.
Sanna sagði frá því á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi að hún hafi ákveðið að kíkja inn á samfélagsmiðilinn X, áður Twitter, eftir langa fjarveru en þar hafi beðið hennar miður skemmtileg skilaboð.
„Þetta er það sem blasti við mér. Held ég hafi aldrei verið kölluð surtur áður, það er nýtt,“ sagði hún um skilaboðin sem blöstu við frá Pétri Yngva Leóssyni.
Sanna hefur þótt standa sig vel í störfum sínum sem borgarfulltrúi og til marks um það má nefna könnun Maskínu í ágúst síðastliðnum. Niðurstöður hennar voru þær að Sanna hefur staðið sig best allra borgarfulltrúa á kjörtímabilinu.
Færsla Sönnu í gærkvöldi vakti talsverða athygli en einnig reiði margra.
„Sumt fólk er hreinlega sorglegt í nöturleika sínum og hatri,“ sagði einn á meðan annar bætti við: „Almáttugur, mikið getur fólk verði bilað og ljótt.“