fbpx
Þriðjudagur 03.desember 2024
Fréttir

Össur segir að Svandís eigi leik í stöðunni: Svona gæti hún fellt ríkisstjórn Bjarna

Ritstjórn DV
Mánudaginn 14. október 2024 09:19

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, segir að það sé algjörlega á valdi Svandísar Svavarsdóttur, formanns VG, hvort Bjarni Benediktsson fái að halda áfram sem forsætisráðherra í þeirri hörðu kosningabaráttu sem nú fer í hönd.

Össur skrifaði á Facebook í morgun athyglisverða greiningu á stöðunni sem upp er komin eftir að Bjarni Benediktsson ákvað að binda enda á sjö ára stjórn Sjálfstæðisflokks, VG og Framsóknar.

Allt annað en sjálfgefið

Össur segir að Bjarni virðist sjálfur ganga út frá því sem gefnu að að hann verði áfram forsætisráðherra. „En Svandís – og aðeins hún – á leiki í stöðunni sem geta fært henni frumkvæði í taflinu við Sjálfstæðisflokkinn. Þeir hafa þó hvergi komið fram í umfjöllun fjölmiðla,“ segir hann.

Gefum Össuri orðið:

„Fjölmiðlar virðast telja að ósk forsætisráðherra um þingrof feli sjálfkrafa í sér formleg stjórnarslit. Í kjölfarið verði svo starfsstjórn komið á laggir sem Bjarni leiði sem forsætisráðherra í gegnum kosningarnar. Þetta er hins vegar allt annað en sjálfgefið og er algerlega undir Svandísi komið.“

Ósk um þingrof ekki sjálfkrafa lausnarbeiðni

Össur bendir á að Bjarni hafi hvergi sagt að hann hyggist biðjast lausnar fyrir ríkisstjórn sína. Aðeins að hann muni óska eftir því við Höllu forseta að hún fallist á beiðni hans um þingrof.

„Þar með yrðu kosningar innan 45 daga. Ósk um þingrof er hins vegar ekki sjálfkrafa lausnarbeiðni fyrir ríkisstjórn. Það eru tveir formlega aðgreindir þættir. Ef engin lausnarbeiðni berst forsetanum verður engin starfsstjórn.“

Össur segir að ríkisstjórnin haldi þá áfram í óbreyttu formi og sé ekki háð þeim takmörkunum sem gilda um starfsstjórnir.

„Þær fela m.a. í sér ákveðna friðarskyldu þar sem ráðherrar sinna einungis verkum sem þarf til að halda ríkinu gangandi uns ný stjórn með þingmeirihluta tekur við. Þeim er ekki ætlað að taka neinar ákvarðanir sem valdið geta ágreiningi,“ segir Össur.

Hann bætir við að ef VG geri engan ágreining við áform Bjarna um að óska eftir þingrofi án þess að biðjast lausnar fyrir ríkisstjórn sína haldi hann því áfram sem forsætisráðherra gegnum kosningabaráttuna „með öllu því forskoti sem þyngd embættisins veitir,“ segir Össur og bætir við: „Hann mun þá eins og allir aðrir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa fullt og óskorað vald í sínum málaflokkum. Vill Svandís það?“

Ríkisstjórn Bjarna myndi falla

Össur segir að Svandís eigi val á öðru og það er að draga VG formlega út úr ríkisstjórninni sem um leið tapar meirihluta sínum á Alþingi.

„Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar er þar með fallin. Forseti Íslands verður þá að fara í viðræður við leiðtoga allra flokka og kanna hver þeim finnst best fallinn til að leiða starfsstjórn fram yfir kosningarnar. Harla ólíklegt er að niðurstaðan verði sú að benda á Bjarna Benediktsson.“

Össur segir að við mat á þessu hljóti Svandís einnig að horfa til þess að ríkisstjórn Íslands er ekki fjölskipað stjórnvald.

„Hafi forsætisráðherra ekki beðist formlega lausnar með bréfi til forseta fyrir ráðuneyti sitt geta ráðherrar tekið allar ákvarðanir sem þeir vilja svo fremi þær eru innan ramma laganna. Í þeim vígaham sem birtist í yfirlýsingum nær allra ráðherra Sjálfstæðisflokksins í gær gagnvart VG, má taka sem gefnu að þeir muni kosta kapps um að skerpa stöðu sína og ásýnd með ýmsum ákvörðunum sem ganga þvert á stefnu VG, t.d. í málefnum innflytjenda og orkumálum. Vill Svandís gefa Sjálfstæðisflokknum þannig skotleyfi á VG beint ofan í kosningar?“

Össur segir að ýmislegt geti gerst á næstunni.

„Eftir það sem á undan er gengið, og eftir þau svipugöng niðurlægingar sem Bjarni og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins leiddu Svandísi í gegnum í atburðarás gærdagsins, þá á Svandís því varla annan kost en þann að draga VG formlega út úr ríkisstjórninni. Geri hún það ekki verður það í annað skiptið, sem VG tryggir Bjarna í stól forsætisráðherra. Hvernig ætlar Svandís Svavarsdóttir að útskýra það fyrir þeim kjósendum á vinstri vængnum sem hún mun biðla til í nauðvörn næstu kosninga? Önnur niðurstaða fæli í sér endanlega uppgjöf fyrir Sjálfstæðisflokknum, og yrði líklega grafskrift hennar sem formanns, og jafnvel VG sem flokks.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Pútín hækkar „ónothæfan“ hershöfðingja í tign

Pútín hækkar „ónothæfan“ hershöfðingja í tign
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Fæstir hafa líklega hugsað út í þessa þróun stríðsins í Úkraínu

Fæstir hafa líklega hugsað út í þessa þróun stríðsins í Úkraínu
Fréttir
Í gær

Joe Biden harðlega gagnrýndur eftir að hann náðaði son sinn

Joe Biden harðlega gagnrýndur eftir að hann náðaði son sinn
Fréttir
Í gær

Mjög ósáttur og hvetur Icelandair til að skammast sín

Mjög ósáttur og hvetur Icelandair til að skammast sín