Slagorð Samfylkingarinnar sem blasir við á forsíðu heimasíðu flokksins hefur vakið talsverða úlfúð meðal annars innan flokksins sjálfs en gagnrýnendur saka flokkinn um að halda fána þjóðernishyggju ótæpilega á lofti með slagorðinu. Meðal þeirra sem gagnrýna slagorðið er borgarfulltrúi flokksins. Einn þekktasti sjónvarpsmaður landsins segir gagnrýnina hins vegar gott dæmi um það sem fæli kjósendur frá vinsti flokkunum.
Slagorðið umdeilda er:
„Sterk velferð, stolt þjóð.“
Þegar heimasíða flokksins er opnuð er slagorðið það fyrsta sem birtist ásamt mynd af formanninum Kristrúnu Frostadóttur:
Um þetta slagorð sagði Kristrún í viðtali við Vísi í gær, eftir að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tikynnti það að hann myndi leggja það til við Höllu Tómasdóttur forseta Íslands að þing yrði rofið og boðað yrði til kosninga:
„Sterk velferð, stolt þjóð er sá valkostur sem Samfylkingin býður upp á og er í takt við þennan stífa undirbúning sem við höfum verið í með samtali við þjóðina síðustu ár.“
Slagorðið kemur í kjölfar breyttrar stefnu í útlendingamálum þar sem lögð er áhersla á að taka upp harðari stefnu en flokkurinn hafði áður. Um þá stefnu segir Kristrún í sama viðtali:
„Við þurfum auðvitað að hafa réttlæti og raunsæi í málefnum innflytjenda.“
Þessi nýja stefna hefur reynst umdeild innan flokksins og kjörnir fulltrúar hans hafa meðal annars gagnrýnt hana og sumir gengið svo langt að segja sig úr flokknum.
Hina harða gagnrýni á slagorðið brýst fram í umræðum á Facebook-síðu Viðars Eggertssonar leikstjóra og varaþingmanns Samfylkingarinnar sem birtir slagorðið með hvítu letri á rauðum grunni. Meðal þeirra sem lýsa óánægju sinni er Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir sem sagði af sé varaþingmennsku og öllum trúnaðarstörfum fyrir Samfylkinguna fyrr á þessu ári meðal annars vegna stefnunnar í útlendingamálum:
„Hvað þýðir stolt þjóð í þessu samhengi? Hvernig birtast stefnumál flokks sem leggur áherslu á stolt þjóðar? Því ég sé bara þjóðernishyggju og ég hélt að það væri ekki í anda jafnaðarstefnu.“
Sabine Leskopf borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sem fædd er og uppalin í Þýskalandi en hefur búið á Íslandi síðan árið 2000, hefur einnig gagnrýnt stefnuna í útlendingamálum. Hún gagnrýnir nýja slagorðið í athugasemd við færslu Viðars:
„Hver er þjóðin?“
Einn einstaklingur gengur svo langt að segja slagorðið í anda þýskra nasista:
„Hvaða rugl er í gangi? Heil Hitler bara strax?“
Þessari athugasemd svarar Viðar:
„Ef við náum árangri í velferðarmálum getum við verið stolt. Þar eru brýnustu verkefnin.“
Viðkomandi svarar svarinu með því að ítreka fullyrðingar um tengsl slagorðsins við nasisma:
„Já, við þurfum auðvitað lífsrými.“
Sema Erla Serdaroglu baráttukona fyrir réttindum flóttafólks og hælisleitenda starfaði í mörg ár í Samfylkingunni en hefur sagt sig úr flokknum vegna nýju stefnunnar í útlendingamálum. Hún er ekki sátt við nýja slagorðið:
„Er fyrsta útspil Samfylkingarinnar eftir að boðað hefur verið til kosninga virkilega bara innihaldslaus þjóðernishyggju popúlismi? Eruð þið bara alveg búin að tapa ykkur?“
Vilhjálmur Þorsteinsson fyrrum gjaldkeri Samfylkingarinnar vill fá nánari skilgreiningu á orðinu þjóð:
„Hver er skilgreiningin á orðinu „þjóð“? Þau sem búa í landinu, þ.m.t. innflytjendur? Innfæddir? Þau sem geta rakið ættir sínar til Jóns Arasonar? Þau sem tala íslensku? Ríkisborgarar? Á fólkið sem fellur ekki undir skilgreininguna „þjóð“ líka að vera stolt?“
Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur og varaþingmaður Samfylkingarinnar segir hins vegar ekkert athugavert við það að nota orðið þjóð:
„Orðið „þjóð“ á ekki að vera tabú.“
Áðurnefnd Sabine Leskopf segir málið hins vegar ekki vera jafn einfalt og Guðmundur Andri heldur fram:
„Enginn lagði hér til að banna orðið heldur er fólk að segja að notkun þess í slagorðum í pólitík er ekki gott þegar andrúmsloftið í útlendingamálum er eins eldfimt og það er og þegar búið er að normalisera útlendingaandúð hér í stórum stíl.“
Egill Helgason hinn þjóðþekkti sjónvarpsmaður tekur þátt í umræðunni og segir hana óneitanlega kostulega en um leið gott dæmi um það sem fæli kjósendur frá vinstri flokkum:
„Gaman að Samfói. Ekki fyrr búið að nokkurn veginn boða til kosninga en farið er að rífast innbyrðis.“
„Það var þjóðfundur til að semja stjórnarskrá, þið viljið líklega flest þjóðareign á auðlindum, teljið þjóðlendur af hinu góða. Og svo framvegis. Svona woke tepruskapur er eitt af því sem hrekur fólk frá vinstri flokkum.“