Sextán ára drengur var handtekinn í miðborg Reykjavíkur í gærkvöldi fyrir að miða skammbyssu að lögreglumanni. Var hann færður á lögreglustöðina þar sem foreldrar hans sóttu hann. Reyndist byssan vera eftirlíking af skammbyssu.
Þetta kemur fram í skýrslu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Nokkur erill var hjá lögreglunni í gærkvöld og nótt. Meðal annars þurfti að sinna tveimur mönnum sem höfðu slasað sig á rafskútu, báðir augljóslega undir áhrifum áfengis. Annar datt af skútunni í miðborginni og fékk skurð á höfuðið. Hinn datt af skútu í Hafnarfirði og fékk einnig skurð á höfuðið. Voru þeir báðir fluttir á bráðamóttöku til skoðunar.
Þá var tilkynnt um líkamsárás í Kópavogi. Ekki er hins vegar vitað hver réðist á fórnarlambið í því tilviki.
Einnig var nokkuð um ölvun, fíkniefnanotkun og umferðarlagabrot, meðal annars að einstaklingar voru sektaðir fyrir að tala í síma án þess að nota handfrjálsan búnað.