fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Fréttir

Telja þetta vera líklega skýringu á tíðum veikindum flugáhafna Icelandair

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 11. október 2024 11:00

Boeing 757 þota Icelandair en veikindi flugliða í slíkum vélum voru algeng á síðasta áratug. Mynd-Wikimedia Commons- Konstantin von Wedelstaedt - GFDL 1.2

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur sent frá sér nýja skýrslu vegna tíðra veikinda fólks í flugáhöfnum í Boeing 757 og 767 flugvélum íslensks flugrekanda síðan árið 2011. Flugrekandinn er ekki nefndur á nafn í skýrslunni en áður hefur komið fram í fréttum að um er að ræða Icelandair og það er eftir því sem DV kemst næst eini íslenski flugrekandinn sem heldur úti farþegaflugi og tilheyrandi fjölda áhafnarmeðlima með flugvélum af þessum tegundum. Kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að líklega hafi efni úr smurolíu borist inn í flugvélarnar frá hreyflunum en getur þó ekki staðfest það með beinum hætti eða að það sé bein orsök tíðra veikinda áhafnarmeðlima. Tíðni veikindanna hefur þó minnkað verulega á síðustu þremur árum eftir ýmsar aðgerðir Icelandair.

Ástæða þótti til að hefja rannsókn vegna fjölda tilkynninga um veikindi áhafnarmeðlima. Lengi vel var á huldu hver ástæðan var fyrir veikindunum. Fundu þau sem veiktust ýmist fyrir einkennum í flugi og hafa sum þeirra átt við langvinn veikindi að stríða í kjölfar atvikanna.

Til samanburðar skoðaði rannsóknarnefnd samgönguslysa allar tilkynningar um veikindi í flugáhöfnum í öllum gerðum loftfara sem bárust Samgöngustofu á árunum 2011-2020. Voru tilkynningarnar samtals 216 á þessu tímabili.

Áberandi mest í þessum tegundum

Skoðað var hvort einhverjar flugvélategundir skæru sig úr hvað varðar fjölda tilkynninga um veikindi áhafnarmeðlima. Reyndust flest atvikin hafa komið upp í Boeing 757 og 767 vélum, jafnvel þegar tekið var tillit til flotastærðar.

Af þessum heildarfjölda tilkynninga vegna veikinda áhafnarmeðlima á árunum 2011-2020, sem eins og áður segir voru 216, voru 153 vegna Boeing 757 og 32 vegna Boeing 767.

Nefndin tók átta tilfelli til sérstakrar skoðunar, 4 sem komu upp í 757 vélum og 4 sem komu upp í 767. Tilfellin áttu sér stað á tímabilinu febrúar 2016 og fram til september 2019.

Í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa segir að rannsóknin á þessum átta tilfellum hafi leitt í ljós að í sumum þeirra voru atvikin hugsanlega af völdum skerts loftflæðis og hitastjórnunar í loftræstikerfi vegna þess að loftrör höfðu aftengst og/eða voru brotin. Í öðrum tilfellum sé talið að atvikin mætti rekja til skorts á loftgæðum, sem hugsanlega væri hægt að rekja til mengandi efna. Þar sem engin loftsýni voru tekin á flugi þegar atvikin áttu sér stað, geti nefndin ekki staðfest hvort að viðkomandi áhafnarmeðlimir hafi orðið útsettir fyrir mengandi efnum í flugunum er atvikin urðu.

TCP

Í tveimur tilfellanna tókst hins vegar að taka sýni þar sem nefndin fékk upplýsingar um veikindi áhafnarmeðlima þegar viðkomandi flugvél var enn á flugi. Vettvangssrannsókn var gerð strax eftir lendingu. Voru yfirborðssýni tekin um borð í báðum tilfellum og fundust TCP2 efnasambönd á yfirborðsflötum um borð. Var annað loftfarið Boeing 757 flugvél og en hitt 767 flugvél. Það reyndist ekki unnt að skera úr um hvort efnasamböndin hafi safnast fyrir eingöngu í þessum tilteknu flugum eða hvort um langvarandi söfnun var að ræða. Hæst hlutfall TCP efnanna var að finna í sýnum teknum nærri loftstokkum, en loft um borð á flugi er fengið með afhleypilofti frá hreyflunum.

Í skýrslunni er nánar útskýrt hvað TCP efnasambönd eru. Þau eru 1-3 prósent þeirra efna sem er að finna í smurolíu sem notuð er á hreyfla Boeing 767 flugvéla í flugflota flugrekandans ( Icelandair innsk. DV). Flugrekandinn noti að öllu jöfnu smurolíur sem ekki innihalda TCP efnasambönd á hreyfla Boeing 757 flugvéla. Samt hafi TCP efnasambönd fundist í smurolíu á hreyfli Boeing 757 flugvélar flugrekandans. Í ljós hafi komið að flugrekandinn heimili notkun annarra tegunda af smurolíu ef rétta smurolían sé ekki til staðar.

Rannsóknin leiddi einnig í ljós að tilfelli sem tengdust skertum loftgæðum og mátti mögulega rekja til hreyfla hafi hugsanlega flust með hreyflunum á milli loftfara þegar skipt var um hreyfla. Á einum hreyflinum var að finna legur og þéttingar, nálægt inntökum afhleypilofts (þaðan sem loft um borð er fengið, innsk. DV) sem höfðu líklega verið í notkun í allt að 95.000 flugtíma og um 15.500 lendingar í alls 28 ár, frá árinu 1991 til 2019. Þó hafði viðkomandi hreyfill farið í margar grannskoðanir og viðgerðir.

Breytingar

Það er því niðurstaða skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa að hugsanlega mætti rekja áðurnefnd TCP efnasambönd í farþega- og áhafnarrými til smurolíu á hreyfli sem komist hafi inn í rýmið með afhleypilofti frá hreyflum. Einnig sé hugsanlegt að þessi efnasambönd komi frá aukaaflsstöð (APU) eða frá flugvallarumhverfi. Þar sem engin hreyfill eða aukaaflstöð voru skoðuð í þessari rannsókn, þá gat nefndin ekki staðfest hvort efnasamböndin kæmu þaðan. Einnig sé ekki vitað hvort að efnasamböndin komu frá einstaka atburði eða hvort að þau hafi safnast yfir langan tíma.

Í skýrslunni segir að lokum að flugrekandinn, þ.e.a.s. Icelandair, hafi gripið til margs konar aðgerða í kjölfar atvikanna og unnið markvisst að endurnýjun flugflotans. Tilkynningum um veikindi áhafnarmeðlima hafi fækkað mikið í kjölfarið en frá árinu 2021 hafa þær verið 14 talsins.

Nefndin mælir að lokum með því að flugrekendur vakti gæði lofts í loftförum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“
Fréttir
Í gær

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum