fbpx
Laugardagur 21.desember 2024
Fréttir

Ríkið bótaskylt eftir að maður braut sóttvarnalög, varð fyrir borgaralegri handtöku og þvingaður í sóttvarnargalla

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 1. október 2024 19:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karlmaður fær 150 þúsund króna miskabætur frá ríkinu eftir að hafa fengið að dúsa í sóttvarnargalla í fangaklefa, grunaður um tilraun til innbrots og um brot á sóttvarnalögum. Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 24. september sl.

Dag einn árið 2021 barst lögreglu tilkynning um að maður hefði reynt að brjótast inn í geymslur í fjölbýlishúsi í Reykjavík. Tilkynnandi, íbúi í téðu húsi, sagðist vera á hlaupum eftir manninum. Tveir lögreglumenn voru sendir á vettvang og fundu þá tilkynnanda sem hafði yfirbugað meintan þjóf og hélt honum föstum. Tilkynnandinn tjáði lögreglu að hann hefði rekist á þennan meinta þjóf ásamt öðrum manni og hafi þeir verið að eiga við geymsluhurðir í húsinu. Hann hafi gefið sig á tal við mennina og þeir við það gengið á brott. Tilkynnandi ákvað þá að veita þeim eftirför og náði öðrum manninum.

Meinti þjófurinn kannaðist ekkert við þá lýsingu. Hann sagðist hafa verið í göngutúr þegar tilkynnandi hefði upp úr þurru ráðist á hann. Hann hafði svo verið handtekinn og fengið að dúsa í fangageymslu í sóttvarnargalla.

Lögregla fór að fjölbýlishúsinu en fann engin ummerki eða skemmdir á geymsluhurðunum. Þó kom í ljós þegar meinta þjófnum var flett upp að sá var skráður í sóttkví. Hann var því handtekinn grunaður um sóttvarnarbrot. Hann dvaldi í um eina og hálfa klukkustund í fangaklefa áður en hann var færður í sóttvarnarhús.

Maðurinn játaði á sig sóttvarnarbrot við yfirheyrslu en neitaði að öðru leyti að tjá sig. Hann tók þó fram að á hann hefði verið „grimmilega ráðist og hann tæklaður af manneskju sem hefði ekki vald til slíks“.

Manninum var tilkynnt í janúar árið 2022 að rannsókn á meintu broti hefði verið hætt. Hann lagði fram bótakröfu gegn ríkinu í október 2023 og féllst ríkið á bótaskyldu en deilt var um fjárhæð bóta.

Maðurinn benti á að almennt sé viðurkennt að handtaka og dvöl í fangaklefa valdi mönnum miskatjóni. Krafðist hann 1 milljónar þar sem um tilefnislausa handtöku hafi verið að ræða, honum gert að dvelja í fangaklefa og að framferði lögreglu hefði verið alvarlegt og ekki samræmst kröfum um meðalhóf. Þá hafi verið sérstaklega íþyngjandi að hann hafi verið handtekinn að ósekju eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás frá almennum borgara.

Ríkið benti á að fullt tilefni hafi verið fyrir aðgerðum lögreglu, þó svo að málið hafi síðar fallið niður. Maðurinn hafi brotið gegn sóttkví og því ekkert óeðlilegt að þvinga hann í sóttvarnargalla til að verja lögreglu og aðra.

Dómari tók fram að ekkert benti til þess að aðgerðir lögreglu hefði verið sérlega niðurlægjandi eða að afskipti hafi verið tilefnislaus. Maðurinn hafi verið grunaður um innbrot og síðar um brot á sóttvarnarlögum. Óumdeilt sé að hann átti á þessum tíma að vera í sóttkví vegna Covid-19. Þar með væru hæfilegar bætur 150 þúsund krónur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sævar Þór beinir athygli að því að sumir hafa það ekki gott um jólin

Sævar Þór beinir athygli að því að sumir hafa það ekki gott um jólin
Fréttir
Í gær

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng