fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Læknir ávísaði miklu magni af fíknilyfjum til látinnar konu í tæp 10 ár – Gaf út 50 reikninga vegna viðtala sem fram fóru eftir andlátið

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 1. október 2024 15:53

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heilbrigðisráðuneytið hefur staðfest ákvörðun embættis landlæknis að svipta lækni starfsleyfi vegna margvíslegra brota hans í starfi. Meðal þeirra er að læknirinn ávísaði miklu magni af ávana- og fíknilyfjum til konu í rétt tæp 10 ár sem reyndist hafa verið látin í allan þennan tíma. Þar að auki sendi hann Sjúkratryggingum alls 50 reikninga vegna viðtala við hina látnu konu og útbjó örorkumatsvottorð vegna hennar. Læknirinn bar því við að sambýlismaður konunnar hefði blekkt hann.

Læknirinn var sviptur starfsleyfinu í september 2023 en kærði sviptinguna til heilbrigðisráðuneytisins í desember sama ár.

Upphaf málsins má rekja til þess að snemma árs 2023 bárust embætti landlæknis upplýsingar frá lögreglu um að lyf hafi verið leyst út í nafni konu sem staðfest sé að hafi látist í Úkraínu árið 2014.

Í ljós kom að umræddur læknir hafði gefið út fjölmargar lyfjaávísanir fyrir ávana- og fíknilyf í miklu magni til konunnar allt frá andláti hennar árið 2014 og fram í febrúar 2023. Á þessum tíma hafði læknirinn breytt lyfjameðferð, bætt við lyfjum og aukið skammta ávana- og fíknilyfja til konunnar. Voru allar ávísanir læknisins til konunnar eftir andlát hennar leystar út á grundvelli umboðs til handa sambýlismanns hennar, sem einnig var sjúklingur hjá lækninum yfir langt skeið og fékk sömuleiðis ávísað lyfjum fyrir miklu magni af ávana- og fíknilyfjum.

Hafi verið blekktur

Læknirinn skýrði lyfjaávísanirnar til látnu konunnar með þeim hætti að hann hefði ekki haft vitneskju um að konan væri látin fyrr en honum bárust þær upplýsingar frá lögreglu árið 2023. Konan hafi verið skjólstæðingur hans frá árinu 1997 en komið síðast til hans í mars 2014. Eftir það hafi sambýlismaður hennar komið reglulega með umboð frá konunni og upplýst lækninn um heilsufar hennar og ástand. Hann hafi sagt að konan héldi til í Úkraínu, heimalandi hennar, þar sem hún byggi hjá bróður sínum. Hún kæmi reglulega til Íslands en treysti sér ekki til læknisins þegar hún væri á landinu.

Læknirinn sagði sambýlismann konunnar hafa bersýnilega blekkt hann.

Reikningar og örorkumat

Við skoðun málsins hjá landlæknisembættinu kom í ljós læknirinn hafði sent Sjúkratryggingum Íslands 50 reikninga vegna viðtala við konuna sem öll hafi átt að hafa farið fram eftir andlát hennar. Nam upphæð þeirra samanlagt 898.772 krónum. Þá sendu Sjúkratryggingar landlæknisembættinu einnig afrit af örorkumatsvottorði sem læknirinn útbjó vegna konunnar og var það dagsett 27. janúar 2017, en þá hafði hún verið látin í þrjú ár. Í vottorðinu kom fram lýsing læknisskoðunar sem átti að hafa farið fram þann dag. Að auki sendu Sjúkratryggingar afrit af reikningi frá árinu 2016 sem stofnuninni barst í tilefni af eftirlitsmáli gagnvart lækninum en sá reikningur var undirritaður af konunni, sem hafði þá verið látin í tvö ár.

Læknirinn sagði í andmælum sínum til embættis landlæknis að ekki væri hægt að gera frekari kröfur á hann en aðra opinbera aðila sem hafi látið blekkjast. Hann hafi ekki einn átt að ganga úr skugga um hvort konan væri á lífi. Hann hafi þvert á móti mátt ganga að því sem vísu að konan væri á lífi meðan hún væri ekki skráð látin í þjóðskrá. Læknirinn hélt því fram að ekki verði með afdráttarlausum hætti ráðið af ákvæðum laga og reglugerða að læknir skuli hitta sjúkling sinn augliti til auglitis við endurnýjun lyfseðla og mat á ástandi viðkomandi. Venjan sé raunar ekki slík, daglega veiti læknar fólki heilbrigðisþjónustu án þess að hitta það í eigin persónu.

Læknirinn vildi ennfremur meina að ekkert hefði verið óeðlilegt við útgáfu reikninganna þar sem sambýlismaður konunnar hefði framvísað umboði frá henni. Tímarnir hafi varðað hana og hann hafi gefið reikningana út í góðri trú. Hann vildi ennfremur meina að það væri ekkert óeðlilegt við að gefa út vottorð vegna umsóknar um örorkubætur án þess að framkvæma skoðun á viðkomandi sjúklingi. Heimilt sé samkvæmt lögum að gefa læknisvottorð út án þess að fari fram sérstök skoðun.

Ítrekaðar ábendingar

Landlæknir vísaði fullyrðingum læknisins um að meðferð málsins hefði verið verulega ábótavant á bug. Það væri ekki rétt sem læknirinn héldi fram að aldrei hefðu áður komið fram kvartanir vegna starfa hans. Þvert á móti hefðu um árabil borist til embættisins ítrekaðar ábendingar um óeðlilegar og óhóflegar lyfjaávísanir læknisins til sjúklinga og brugðist hafi verið við í hvívetna með bréfum, fundum og samtölum við hann. Læknirinn hafi jafnframt tímabundið verið sviptur leyfi til að ávísa tilteknum ávanabindandi lyfjum vegna óhóflegra lyfjaávísana hans til fjölda sjúklinga.

Landlæknisembættið sagði einnig, í svörum sínum til heilbrigðisráðuneytisins, að ljóst væri að læknirinn hefði orðað örorkumatið sem hann útbjó vegna konunnar 2017 á þann hátt að draga mætti þá ályktun að konan hefði komið í skoðun til hans. Með þessu hafi læknirinn vísvitandi gefið út rangt vottorð og þannig brotið lög um heilbrigðisstarfsmenn. Sama megi segja um reikningana sem hann gaf út vegna viðtala við konuna sem fram fóru eftir andlát hennar. Hann hafi bersýnilega gefið út ranga reikninga.

Alvarleg brot

Í niðurstöðu heilbrigðisráðuneytisins segir að fyrir liggi að læknirinn hafi ávísað lyfjum til konunnar í tæp tíu ár eftir andlát hennar á grundvelli umboðs og upplýsinga frá sambýlismanni. Hann hafi á þessum tíma gert ýmsar breytingar á lyfjameðferðinni á grundvelli þessara upplýsinga mannsins. Magn lyfja sem hann hafi ávísað til konunnar hafi margfaldast á árunum 2015 til 2022.

Ráðuneytið segir einnig í sinni niðurstöðu að gögn málsins sýni fram á að lyfjaávísanir konunnar, manns hennar og tveggja annarra sjúklinga hafi verið á lyf sem virki ekki saman og að eftirfylgni með sjúklingunum hafi ekki verið fullnægjandi, svo sem mikilvægt sé þegar meðferð er viðhöfð með ávana- og fíknilyfjum. Þetta hafi gengið gegn lögum um réttindi sjúklinga og að ávísanirnar hafi sömuleiðis verið óhóflegar.

Það er einnig niðurstaða ráðuneytisins að alvarleg vanræksla hafi falist í því að ávísa áfram lyfjum til konunnar látnu og gera breytingar á meðferðinni eftir að hún hætti að koma til læknisins. Segir ráðuneytið að læknirinn hafi átt að gera tilraun til að kanna hvert raunverulegt ástand konunnar væri. Um sé að ræða alvarlegt brot á lögum. Það sama eigi við um reikningana sem læknirinn gaf út vegna viðtala við konuna án þess að hitta hana augliti til auglitis. Hafi þessir reikningar gefið ranglega til kynna að læknirinn hefði veitt konunni heilbrigðisþjónustu. Með útgáfu örorkuvottorðsins hafi læknirinn einnig brotið alvarlega gegn skyldum sínum en af því megi ekki annað ráða en að hann hafi hitt konuna og framkvæmt skoðun á henni þótt hún hafi þá verið látin í þrjú ár.

Í ljósi alls þessa staðfesti heilbrigðisráðuneytið ákvörðun embættis landlæknis um að svipta lækninn starfsleyfi.

Úrskurðinn í heild sinni er hægt að nálgast hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?
Fréttir
Í gær

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt
Fréttir
Í gær

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti