Þann 30. september var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness dómur í sérstæðu innheimtumáli. Bílaumboðið BL ehf. stefndi þá Gesti Breiðfjörð Gestsyni, framkvæmdastjóra Sparnaðar og fjárfesti, vegna þrifa og viðgerða á bíl af gerðinni Land Rover Discovery, eftir að pallaolía sullaðist inni í bílnum.
Forsaga málsins er sú að í mars árið 2020 kom upp bilun í Land Rover Discovery bíl Gests sem hann hafði keypt af BL. Hann fór með bílinn í viðgerð hjá umboðinu og fékk samskonar bíl til afnota á meðan verkinu stóð. Nokkru síðar varð þáverandi eiginkona Gests fyrir því óhappi að bíll ók í veg fyrir hana á þjóðveginum nálægt vegamótum við Akrafjallsveg. Þurfti hún að nauðhemla til að forðast árekstur. Í farangursrými voru pallaolíudósir og við nauðhemlunina fóru lokin af þeim og olían helltist niður og olli töluverðu tjóni á innra byrði bílsins.
Í dómnum kemur fram að þegar Gestur tilkynnti um óhappið til BL var honum tjáð að trygging bílsins bætti tjónið. Síðar kom á daginn að tryggingafélagið neitaði tjónaskyldu þar sem tryggingin næði ekki til farmflutninga. Engu breyttu þó að um umferðaróhapp væri að ræða, ekki nema að eiginkona Gests gæti tilgreint aðilan sem ók í veg fyrir hana.
Í mars árið 2022, eða um tveimur árum eftir atvikið, sendi BL reikning á Gest fyrir þrifunum og viðgerðunum upp á rúmlega 3,8 milljónir króna. Reikningnum var fylgt eftir með innheimtuviðvörun í apríl sama ár. Hann neitaði að greiða, meðal annars á þeim forsendum að hann hafði ekki fengið neinar upplýsingar um að slíkur reikningur væri yfirvofandi.
Við meðferð málsins fyrir dómi var kallaður til dómkvaddur matsmaður sem mat vinnuna við þrif og viðgerðir upp á rúmlega 2,6 milljónir króna og var það krafan sem BL gerði á viðskiptavin sinn fyrir dómi.
Það var mat dómara að krafan hefði komið of seint fram og Gestur væri því sýknaður af öllum kröfum BL sem auk þess þarf að greiða Gesti málskostnað upp á 1,5 milljónir króna.
Dóminn má lesa hér.