fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Fréttir

Jón Ísak lýsir hroðalegri manneklu á hjúkrunarheimilinu Eir – Gömul kona hrinti annarri á páfagaukabúr og eggin brotnuðu

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 1. október 2024 17:30

Jón Ísak Hróarsson Mynd: Efling

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hjúkrunarfræðingurinn yfirgefur deildina að sinna öðrum verkum og ég er einn. Um leið byrja tvö mismunandi rifrildi milli íbúa á ganginum, ég þarf að velja hvort parið ég ræði við fyrst til að reyna að róa málin,“

segir Jón Ísak Hróarsson, 25 ára gamall starfsmaður á Eir hjúkrunarheimili, um upphaf einnar kvöldvaktar sinnar. 

„Ég mætti á kvöldvakt klukkan 16, þar sem hjúkrunarfræðingur tilkynnir mér um veikindi hjá þeim sem áttu að vera með mér á vakt frá klukkan 16. Starfsfólk á styttri vakt klukkan 17 var fengið til að mæta fyrr en ég þurfti að vera einn með yfir 20 íbúa til 16:30.“

Búin að fá nóg af því að vera undirmönnuð og útkeyrð

Félagsfólk Eflingar sem starfar á hjúkrunarheimilinu Eir krefst þess að raunveruleg lausn verði fundinn á mönnunarvanda hjúkrunarheimilisins. Þau sætta sig ekki við að vera lengur undirmönnuð og útkeyrð. Jón Ísak situr í samninganefnd Eflingar.

Jón Ísak segist hafa valið aðróa fyrst tvo karlkyns íbúa þar sem þeir væru báðir í byltuhættu og einn með sögu um reiðivanda, en á meðan hann talaði við þá tvo þá stigmagnaðist annað rifrildi milli tveggja kvenna. 

„Ég fer strax að hlaupa að þeim en áður en ég næ til þeirra þá hrindir önnur konan hinni harkalega svo hún lendir á páfagaukabúri sem var á deildinni. Sem betur fer slasaðist hún ekki en páfagaukarnir höfðu eignast egg fyrr í mánuðinum og þau brotnuðu öll við byltuna,“ segir Jón Ísak.

„Þetta gerist allt á þessum hálftíma sem ég var einn með yfir 20 íbúa á ganginum, sem margir eru með alvarlegar heilabilanir og þurfa mikla aðstoð við daglegt líf. Þetta hefði aldrei þurft að gerast ef vaktir væru mannaðar betur til að tryggja öryggi íbúa. Það er létt að ímynda sér hvernig þetta hefði getað endað mikið verr fyrir íbúana sem um ræðir.“

Sólveig Anna hótaði verkfalli en bjartsýn á árangur í lok mánudags

Viðræður í kjaradeilu Eflingar og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu hjá ríkissáttasemjara hófust að nýju í morgun, en fundur stóð yfir í gær frá kl. 13 til 17. Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar sagði fyrir þann fund að boðað yrði til verkfalls næðust ekki samningar á fundinum. Aðalkrafa samninganefndarinnar er að bætt verði úr mönnunarvanda sem ríki inni á hjúkrunarheimilum.

Aðspurð um hvort frestur á fundi gæfi tilefni til að aðilar næðu saman á fundinum í dag sagði Sólveig Anna við RÚV í gær:

„Það er auðvitað margt sem á eftir að ræða, en ef það samtal sem átti sér stað í dag skilar árangri á morgun. Þá eru þau önnur atriði sem út af standa þess eðlis að það verður ekki erfitt, tel ég, að ganga frá þeim. En ég ætla samt ekki að þykjast vera of jákvæð og bjartsýn akkúrat núna vegna þess að við vitum ekki hvað gerist á morgun.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt