Umræður um öryggi gangandi vegfarenda yfir Sæbraut hafa verið miklar síðustu ár og varð sú umræða enn háværari síðustu daga eftir banaslys aðfararnótt sunnudags. Kona á fertugsaldri lést þegar fólksbíl var ekið á hana þegar hún var á leið yfir Sæbraut, á milli Súðarvogs og Kleppsmýrarvegar.
Í morgun fjallaði Morgunblaðið um að Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefði lagt fram tillögu í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur í október í fyrra þar sem meðal annars var lagt til að öryggi gangandi vegfarenda yfir Sæbraut yrði aukið. Tillagan var hins vegar felld.
Sjá einnig: Banaslysið á Sæbraut:Kjartan vildi auka öryggi gangandi vegfarenda en tillagan var felld
Í bókun sem Sjálfstæðismenn lögðu þá fram sögðu þeir ófremdarástand ríkja á gatnamótum Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar. Gatnamótin önnuðu engan veginn mikilli umferð frá atvinnuhverfinu sunnan Sæbrautar né ört vaxandi íbúðabyggð þar.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður umhverfis- og skipulagsráðs, er allt annað en sátt við þessa umfjöllun og segist ekki geta orða bundist „þegar ég sé fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem hafa beitt sér gegn úrbótum í þágu gangandi á þessum gatnamótum slá sér á brjóst í málinu.“
Segir hún að um tvískinnung sé að ræða. „Sjálfstæðisflokkurinn hefur þegar kemur að umferðaröryggi við þessi gatnamót ekki verið hluti af lausninni heldur vandanum,“ segir Dóra Björt.
„Í fyrra samþykktum við að bæta umferðaröryggi fyrir gangandi við þessi gatnamót við Sæbraut og Kleppsmýrarveg þar sem slysið varð með nokkrum aðgerðum,“
segir Dóra Björt í færslu á Facebook og birtir mynd með af þeim úrbótum.
„Fækkun beygjuakreina var sérstaklega umdeild en mikilvæg aðgerð og Sjálfstæðisflokkurinn lagði til að sveigja af þeirri leið og fjölga aftur beygjuakreinum, sumsé að draga úr umferðaröryggi fyrir gangandi. Sú tillaga var felld. Nú er sú tillaga puntuð upp í Morgunblaði dagsins sem einhver úrbótatillaga fyrir gangandi. Ég get ekki kallað þetta neitt annað en tvískinnung.“
Með færslunni birtir Dóra Björt tillögu Sjálfstæðisflokksins og umsögn ásamt minnisblaði um framkvæmdina. Auk hlekks á fundargerð þar sem upprunaleg tillaga um umferðaröryggisúrbætur fyrir gangandi er samþykkt með hjásetu Sjálfstæðisflokksins.
Í umfjöllun Morgunblaðsins kemur fram að Marta Guðjónsdóttir og Björn Gíslason, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, myndu leggja fram tillögu á fundi borgarstjórnarfundi í dag um að ráðist verði í neyðaraðgerðir til að bæta umferðaröryggi við gatnamót Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar. Í tillögunni er lagt til að sérstakri snjallgangbraut verði komið fyrir á gatnamótum Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar. Virkar snjallgangbrautin þannig að hún skynjar þegar gangandi vegfarendur nálgast gangbrautina og kviknar þá LED-göngulýsing sem lýsir upp gangbrautina og vegfarendur á meðan gengið er yfir götuna. Fundargerðin er ekki komin inn á vef Reykjavíkurborgar þegar þetta er skrifað.