Nokkuð hefur verið rætt um dönskukunnáttu Höllu á samfélagsmiðlum en í frétt mbl.is í gærkvöldi kom fram að hún talaði ensku við konungshjónin. Kom enn fremur fram í fréttinni að í kvöldverði sem haldinn var í Kristjánsborg hafi bæði Friðrik og Halla flutt ræðu; ræða Halla hafi byrjað á dönsku en langstærstur hluti hennar farið fram á ensku.
Þá var tekið fram í fréttinni að allir fyrrverandi forsetar lýðveldisins hafi flutt ræðu sína á dönsku en Sveinn Björnsson fór þó aldrei í slíka heimsókn til Danmerkur.
Eins og að framan greinir hefur dönskukunnátta Höllu vakið nokkra athygli eins og sjá má á meðfylgjandi skjáskotum og sitt sýnist hverjum.
Á Facebook-síðu mbl.is við fyrrgreinda frétt hafa margir lagt orð í belg og hrósar fólk ýmist Höllu eða gagnrýnir hana.
„Þá hefði verið betra að tala bara íslensku – þetta er til skammar,“ segir einn.
„Halla er okkur til skammar,“ segir annar.
„Af hverju talar hún ekki íslensku í staðinn fyrir ensku. Mér finnst það lélegt.“
„Eitthvað annað en Vigdís sem talaði dönsku.“
„Helvíti er það aumt. Til skammar bara.“
„Af hverju talaði hún ekki Íslensku við konungshjónin?“
Þó skal tekið fram að fleiri hrósa Höllu og segja hana vera landi og þjóð til mikils sóma eins og sést á meðfylgjandi athugasemdum:
„Halla stendur sig vel, sama hvaða tungumál hún kýs að nota.“
„Í fínu lagi að tala ensku, ekki ætlumst við til að gestir okkar bregði fyrir sér íslenskunni hér.“
„Frábært hjá henni.“
„Og hverjum er ekki skítsama?“
„Hún gerði þetta glæsilega.“
„Flott ræða hjá henni og hún Íslandi til sóma.“
„Halla stendur sig mjög vel.“
Í viðtali við mbl.is í gær sagðist Halla hafa talað „blandinavísku“ þegar hún flutti ræðu á danska þjóðþinginu í gær. Þá sagðist hún hafa rætt lítillega við Margréti Þórhildi Danadrottningu á dönsku þegar þær hittust í gærmorgun. Eðlilegustu samskipti hennar og eiginmanns hennar við Friðrik Danakonung og Maríu Danadrottningu fari þó fram á ensku.
Brot úr ræðu Höllu var birt í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi. Það byrjar þegar rúmar 16 mínútur eru liðnar af fréttatímanum.