Héraðssaksóknari hefur ákært mann fyrir nauðgun á hótelherbergi. Atvikið átti sér stað þann 16. desember árið 2023. Maðurinn er sakaður um að hafa haft önnur kynferðismök en samræði við konu, án hennar samþykkis, beitt hana ólögmætri nauðung og notfært sér ölvunarástand hennar, með því að stinga fingri inn í
leggöng hennar og sleikt kynfæri hennar, en konan gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Maðurinn hafði sáðlát í rúminu þar sem konan svaf.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar en konan gerir kröfu um miskabætur upp á fjórar milljónir króna.
Aðalmeðferð í málinu var við Héraðsdóm Austurlands á Egilsstöðum þann 2. október. Búast má við að dómur falli í málinu um mánaðamótin.