„Vitleysan um að farga Reykjavíkurflugvelli er strand. Eldguðinn hefur talað og engum heilvita manni dettur í hug að halda áfram umræðu um flugvöll í kjaftinum á eldgosi,“ segir Guðni í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Skýrsla starfshóps um rannsóknir á byggingu flugvallar í Hvassahrauni var kynnt í síðustu viku og er óhætt að segja að skýrslan hafi vakið viðbrögð og umræður. Skýrsluhöfundar telja að veðurskilyrði mæli ekki gegn byggingu flugvallar í Hvassahrauni, að flugvallarsvæði væri að mestu utan skilgreindra eldstöðvakerfa og að langtímaáhrif verði ekki mikil á innanlandsflug verði það fært á nýjan flugvöll.
Meðal tillagna hópsins er að skilgreint svæði verði tekið frá upp af Hvassahrauni fyrir þrjár flugbrautir og að unnið verði að frekari rannsóknum.
Guðni segir að nefndin hafi bæði verið tvísaga og hlutdræg í tilsvörum sínum, ekki síst séu þau borin saman við rök eldfjallafræðinga. Þannig segi nefndin að „ólíklegt sé talið að hraun renni yfir Reykjanesbrautina á þessu svæði og þó sé það ekki útilokað.“
„Og svona þvælir nefndin fram og aftur um málið; ræðan öll er „já, já og nei, nei“. Enda er nefndin að uppistöðu hagsmunaaðilar af Suðurnesjum og úr Reykjavík sem hafa flutning flugvallarins úr Vatnsmýrinni að leiðarljósi.“
Í grein sinni vísar Guðni í viðbrögð Þorvaldar Þórðarsonar eldfjallafræðings og Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, sem voru báðir ómyrkir í máli.
„Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, segir: „…það eru miklu meiri líkur á að hraun flæði yfir það stæði heldur en nokkurn tíma þar sem flugvellirnir eru nú þegar.“ Það sé kjánaskapur að tala um að ekki þurfi að taka tillit til eldsumbrota. Þannig tala allir þeir sem kallast sérfræðingar í eldsumbrotum og hafa tjáð sig.“
Þá segir hann að Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, hafi svarað „þrætunni“ betur en allir stjórnmálamennirnir til samans. Þannig væri hvorki raunhæft né skynsamlegt að forgangsraða innviðauppbyggingu núna með því að setja hundruð milljarða í nýjan flugvöll.
„Svo bætir hann við: „Við vitum að það þarf að styrkja vegakerfið verulega, heilbrigðiskerfið, löggæsluna og margt fleira.“ Sennilega er Boga málið skylt og Icelandair ætlað að bera þungann af vitleysunni og bruðlinu.“
Guðni segir að þjóðin yrði að borga brúsann af 300 til 400 milljarða króna flugvelli.
„Sú var tíðin að þjóðin átti Vatnsmýrina. En á einni nóttu seldi Samfylkingin, eða þáverandi fjármálaráðherra Katrín Júlíusdóttir, Reykjavíkurborg flugvöllinn fyrir jarðaverð. Flokksbróðir hennar Dagur B. Eggertsson, þá staðgengill borgarstjóra, var hinum megin borðsins.“
Guðni nefnir að lokum að nú hafi Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra slegið á fingur nefndar sinnar og segi flugvallarumræðuna út af borðinu með afgerandi orðum.
„Hann myndi ekki setja sína eigin peninga né almennings í þennan Hvassahraunsflugvöll vegna náttúruvár. Sigurður Ingi veit að þótt nefndir starfi eru það stjórnmálamenn sem taka lokaákvörðun. Umræðunni um Hvassahraunsflugvöll hlýtur að vera lokið.“