Rannsókn á barnsmorðinu í nálægð við Krýsuvík þann 15. september síðastliðinn er í fullum gangi en ekki liggja fyrir stórar fréttir af rannsókninni í bili. Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á miðlægri rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, ræddi stöðu rannsóknarinnar við DV.
„Á hverjum degi er eitthvað sem gerist í svona máli en þetta er engu að síður þannig að þegar maður nær utan um svona mál á fyrstu klukkutímunum eða dögunum þá fer það bara í farveg og svo sem ekki neitt af því að frétta á milli daga eða vikna,“ segir Grímur.
Sigurður Fannar Þórsson situr í gæsluvarðhaldi á Hólmsheiði, grunaður um að hafa orðið tíu ára gamalli dóttur sinni, Kolfinnu Eldeyju, að bana. Aðspurður hvort Sigurður hafi játað á sig glæpinn segist Grímur ekki vilja svara því nema með þessum hætti:
„Ég vil bara benda á að hann hringdi sjálfur inn.“
Sigurður var á dögunum úrskurðaður í gæsluvarðhald til 21. október. Aðspurður staðfestir Grímur að Sigurður hafi ekki kært gæsluvarðhaldsúrskurði yfir sér til Landsréttar. Það er til marks um að hann sætti sig gæsluvarðhald og efist ekki um réttmæti þess.
Aðspurður hvort Sigurður sé yfirheyrður reglulega segir Grímur: „Hann er yfirheyrður eins og þurfa þykir. Það er ekki hægt að segja að það sé reglulega, ákveðnir dagar eða eitthvað svoleiðis, bara þegar eru efni og gögn sem við viljum bera undir viðkomandi, þá er það gert.“
Þrálátar sögusagnir hafa verið á sveimi í samfélaginu um að albanskir undirheimamenn tengist glæpnum og jafnvel hafi Sigurður ekki verið að verki heldur slíkir aðilar. Grímur vísar þessum sögusögnum á bug.
„Nei, við höfum alveg fengið þessar upplýsingar eins og aðrir og eftir atvikum reynt að skoða þetta og það er ekkert sem bendir til þess að þetta sé með þessum hætti. Ég hef bent á það að við lögreglan erum auðvitað ekki án tengsla við það sem kallað er undirheimar.“
DV spyr Grím hvort Sigurður hafi gengist undir geðmat:
„Það er í rauninni staðlað við svona rannsóknir að viðkomandi fer í geðmat, það er ekki komin niðurstaða í því,“ segir Grímur Grímsson.