Við Bugðufljót 9 í Mosfellsbæ er að finna verkstæðið ABC bílar en þar ræður ríkjum þekktur maður úr atvinnulífinu, Jóhann Jónas Ingólfsson. Á vefsíðu fyrirtækisins kemur nafn Jóhanns nokkrum sinnum fyrir, er hann ávarpar lesendur síðunnar, á sérstakri undirsíðu fræðir hann lesendur um ýmislegt sem viðkemur bílaviðgerðum og umhirðu bíla, undir nafninu Jóhann Ingólfsson. Þar er meðal annars að finna fræðslugreinarnar „Kostnaður við skipti á bremsudiskum og klossum“, „Eru nagladekk betri en ónegld dekk?“ og „Kostnaður við smurningu og olíuskipti. Hvað þarftu að vita.“
Höfundur var þann 15. apríl á þessu ári dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir hættubrot og brot gegn lögum um brunavarnir vegna þess að hann lét erlenda starfsmenn sína gista í leyfisleysi á ótryggum stað með tilliti til eldvarna, í Brautarholti í Reykjavík. Starfsmennirnir voru skráðir til starfa hjá fyrirtækinu Já, iðnaðarmenn sem er gjaldþrota og afskráð. Lesa má dóminn hér en þar segir meðal annars:
„…þegar Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins skoðaði eldvarnir hússins að beiðni lögreglu 6. júní 2018, komu meðal annars í ljós eftirtaldir gallar á brunavörnum; engin
brunahólfun var til staðar í húsnæðinu til að takmarka útbreiðslu elds og reyks, flóttaleiðir voru ófullnægjandi, loft var klætt auðbrennanlegu plasti og bil veggja og lofts voru fyllt hraðbrennanlegu efni, ástand raflagna var óásættanlegt og skapaði eldhættu, auk þess sem starfsemi sem fór fram í húsnæðinu fól í sér íkveikjuhættu og aukin brunahætta var vegna mikils eldsmatar í húsnæðinu. Með þessu stofnaði ákærði í ábataskyni og á ófyrirleitinn hátt lífi og heilsu þeirra manna sem búsettir voru í húsnæðinu í augljósan háska en í það minnsta átta menn voru búsettir í húsnæðinu.“
Jóhann og fyrirtæki hans hafa oft komið við sögu dómstóla. Í desember árið 2021 greindi DV frá því Jóhann hafi verið dæmdur í 11 mánaða skilorðsbundið fangelsi og til þess að greiða ríkinu 111 milljónir í sekt vegna meiriháttar skattalagabrota og fjárþvætti tengdu því broti.
Jóhann rak fyrirtækið Já iðnaðarmenn sem DV hefur jafnframt fjallað ítarlega um. Er Jóhann sagður hafa skilið eftir sig sviðna jörð um víðan völl vegna reksturs Já iðnaðarmanna. Var nafni félagsins svo að endingu breytt rétt fyrir gjaldþrot og nýtt félag stofnað utan um reksturinn með álíku nafni. Hafði DV fyrir því heimildir þá að rekstur Jóhanns hefði verið ítrekað kærður til lögreglu vegna meintra brota á iðnaðarlögum og að kvartað hefði verið til eftirlitsaðila undan viðskiptaháttum Jóhanns.
„Ég er búinn að vera í þessum bransa í þrjátíu ár og ég hef aldrei kynnst öðrum eins siðblindingja,“ sagði Ingólfur Steingrímsson, eigandi Kvarna ehf., við DV árið 2017. Félagið leigir meðal annars út vinnupalla fyrir verktaka og hefur Ingólfur brennt sig á viðskiptum sínum við Jóhann. „Hann skuldar okkur tæplega sex milljónir auk þess sem hann er enn með palla fyrir um tvær milljónir króna. Þegar við höfum gengið á hann þá vísar hann bara á skiptastjóra þrotabúsins og virðist telja að málið komi sér ekki lengur við,“ sagði Ingólfur. Sömu sögu var raunar að segja af samkeppnisaðila Kvarna, Stoðir pallaleigu. „Við höfum unnið saman við að hafa upp á pöllunum sem Jóhann hefur leigt af okkur. Við höfum verið að finna þá um allan bæ þar sem Jóhann er með verk í gangi á nýju kennitölunni,“ sagði Ingólfur enn fremur.
Þá var Jóhann á 10. áratug síðustu aldar dæmdur fyrir smygl á fíkniefnum og nauðgun. Mun Jóhann hafa klætt sofandi konu úr fötunum og haft við hana samræði gegn vilja hennar. Er hann afplánaði fangelsisdóm fyrir nauðgunina kynntist hann Steini Ármanni Stefánssyni.
Í febrúar 1991 var Jóhann gripinn með þrjú kíló af hassi og til þess að milda refsingu vegna smyglsins ljóstraði hann upp um stærra fíkniefnamál Steins Ármanns sem hann kynntist í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Það mál átti eftir að verða þekkt sem Stóra-kókaínmálið.