fbpx
Mánudagur 27.janúar 2025
Fréttir

Glímir við veikindi og veltir fyrir sér að flytja til Íslands – „Hvað í ósköpunum ertu að tala um?“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 7. október 2024 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einstaklingur sem segist vera með íslenskt ríkisfang en hafa búið í Noregi mest alla ævina leitar ráða á samfélagsmiðlinum Reddit. Viðkomandi segist glíma við veikindi og ekki fá fullnægjandi heilbrigðisþjónustu í Noregi og veltir fyrir sér hvort það væri góð hugmynd fyrir hann að flytja til Íslands í von um að fá betri þjónustu. Óhætt er að segja að öll svör sem maðurinn fær við þessum vangaveltum sínum séu á eina lund. Honum er eindregið ráðlagt að vera um kyrrt í Noregi og flytja ekki til Íslands því þar sé öruggt að heilbrigðisþjónustan sé verri.

Umræddur einstaklingur skrifar færslu sína á ensku. Hann segir meðal annars svo frá að hann sé í raun týndur í norska heilbrigðiskerfinu. Hann segist að miklu leyti vera rúmliggjandi og eigi enga vini. Einstaklingurinn lýsir veikindum sínum ekki í smáatriðum en segist meðal annars glíma við sjálfsofnæmi. Hann segir að flestir úr fjölskyldu hans búi á Íslandi og veltir því fyrir sér hversu góð heilbrigðisþjónustan er á Íslandi. Viðkomandi segist aðeins fá að hitta lækni í Noregi í 10 mínútur á eins og hálfs mánaðar fresti.

Svörin eru eins og áður segir öll á eina lund og miðað við viðbrögð fyrirspyrjandans þá virðist ljóst að hann sé snarlega hættur við að flytja til Íslands.

Rusl

Meðal svara er:

„Það er 100 prósent öruggt að þú færð betri meðhöndlun í Noregi.“

„Ég var hræddur um það,“ svarar fyrirspyrjandinn.

„Vertu um kyrrt í Noregi, kerfið hérna er rusl.“

Þessu svarar fyrirspyrjandinn á eftirfarandi hátt:

„Takk fyrir hreinskilið svar. Hugur minn er hjá ykkur. Fjölskylda mín elskar að gorta sig af Íslandi, allt á að vera svo fullkomið þar. Ég þurfti að heyra þetta.“

Í einu svari er fyrirspyrjandanum bent á að íslenskir læknar og hjúkrunarfræðingar hafi flykkst til Noregs undanfarin ár þar sem íslenska heilbrigðiskerfið sé illa fjármagnað og því illa stjórnað.

Fyrirspyrjandinn svarar því til að það sé ekki gott en bætir við að mikið álag sé einnig á læknum og hjúkrunarfræðingum í Noregi.

Fínt að mestu leyti

Einn Íslendingur sem svarar segist einnig vera með sjálfsofnæmi. Hann segist hafa að mestu leyti fengið góða heilbrigðisþjónustu hér á landi en róðurinn hafi þó þyngst þegar læknirinn sem var með hann til meðhöndlunar hafi flutt úr landi. Hann segir gæði heilbrigðisþjónustu á Íslandi fara mikið eftir því hjá hvaða lækni maður lendir. Viðkomandi segist telja best að búa þar sem tengslanetið sé sterkast hvort sem það er í Noregi eða á Íslandi.

Íslendingur sem segist búa í Svíþjóð mælir ekki með því að flytja til Íslands heilbrigðisþjónustunnar vegna. Hann segist hafa sjálfur fengið mun betri þjónustu í sænska heilbrigðiskerfinu.

Einn sem svarar innlegginu tekur nokkuð sterkt til orða:

„Hvað í ósköpunum ertu að tala um? Vertu áfram í Noregi.“

Sá sem ritar innleggið svarar þessu þannig að hann ætli að vera áfram í Noregi og honum líði illa yfir ástandinu á Íslandi. Hann ítrekar þó að norska heilbrigðiskerfið hafi ekki reynst dans á rósum fyrir hann:

„Maður verður að vera dáinn að 2/3 hluta til að fá að hitta sérfræðing. Ég þurfti að hringja á sjúkrabíl tvisvar til að fá hjálp. Ég fékk lugnabólgu og með mína sjúkrasögu getur það reynst banvænt fyrir mig, segir læknirinn minn. Samt reyndu þau að leggja til að ég tæki parasetamól og færi heim. Ég endaði inniliggjandi á spítala í tvær vikur.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

„Við getum öll verið einmana innan um fullt af fólki og maður getur verið mjög lítið einmana einn“

„Við getum öll verið einmana innan um fullt af fólki og maður getur verið mjög lítið einmana einn“
Fréttir
Í gær

Myndband frá bílbruna í Strýtuseli

Myndband frá bílbruna í Strýtuseli
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ingibjörg sýnir hvernig sagan er að endurtaka sig og hvað getur „leitt okkur út úr þessum ógöngum“

Ingibjörg sýnir hvernig sagan er að endurtaka sig og hvað getur „leitt okkur út úr þessum ógöngum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hryllingur á Vesturlandsvegi eftir að veðrið versnaði skyndilega

Hryllingur á Vesturlandsvegi eftir að veðrið versnaði skyndilega
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Höfundur ísraelska lagsins sem sakar VÆB um lagastuld hefur sett málið í hendur lögmanna sinna – „Hreinn og beinn stuldur á minni vinnu“

Höfundur ísraelska lagsins sem sakar VÆB um lagastuld hefur sett málið í hendur lögmanna sinna – „Hreinn og beinn stuldur á minni vinnu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fékk lán í rekstrarerfiðleikum og afsalaði fasteign til eiginkonunnar – Sýknuð af kröfu um tæpar 14 milljónir vegna gjafagjörnings

Fékk lán í rekstrarerfiðleikum og afsalaði fasteign til eiginkonunnar – Sýknuð af kröfu um tæpar 14 milljónir vegna gjafagjörnings
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Móðir lét umskera lim sonar síns í heimahúsi – Endaði í lífshættulegri aðgerð á Sjúkrahúsi Akureyrar

Móðir lét umskera lim sonar síns í heimahúsi – Endaði í lífshættulegri aðgerð á Sjúkrahúsi Akureyrar