Í dagbók Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að mótmælendur hafi fyrr í dag heft för lögreglubifreiðar sem var í forgangsakstri á leið á slysstað.
Í dagbókinni, sem send er fjölmiðlum tvisvar á hverjum sólarhring, segir að tilkynnt hafi verið um harðan árekstur í hverfi 105 í Reykjavík. Lögreglan hafi verið send á vettvang með forgangi þar sem ekki hafi verið vitað um meiðsli. Á leið á vettvang hafi fólk í mótmælagöngu gengið í veg fyrir lögreglubifreiðina og gert í því að stöðva för lögreglunnar.
Í dagbókinni segir að það sé mikilvægt að gangandi og akandi vegfarendur virði lögreglu í forgangsakstri og hefti ekki för hennar.
Ekki kemur fram um hvaða mótmæli var að ræða en væntanlega hafa þarna verið á ferð mótmælendur sem mótmæltu í dag hernaði Ísraels í Palestínu og Líbanon. Mótmælin fóru að hluta til fram við bandaríska sendiráðið við Enjateig, sem er einmitt í hverfi 105, en í fréttum fjölmiðla kemur fram að til stympinga hafi komið við sendiráðið, á milli mótmælenda og lögreglumanna, og að rauðri málningu hafi verið skvett á vegg sendiráðsins.