„Ég hef jafnan í alþingiskosningum kosið Sjálfstæðisflokkinn. Ástæðan er sú að mér hefur fundist hann standa nær afstöðu minni til frelsis og ábyrgðar en aðrir, auk þess sem flokkurinn hefur haft uppi stefnumið í ýmsum málum, sem mér hafa þótt burðugri en annarra. Nú eru mér hins vegar að fallast hendur í stuðningi við þennan flokk. Hann hefur nefnilega hreinlega fórnað mörgum stefnumálum í þágu samstarfs í ríkisstjórn með verstu vinstri skæruliðum sem finnast í landinu.“
Jón Steinar segir engu líkara en að fyrirsvarsmenn flokksins hafi verið tilbúnir að fórna stefnumálum sínum fyrir setu í ríkisstjórn.
„Þá má spyrja: Til hvers eru menn í stjórnmálum ef þeir eru ekki að koma fram þeim stefnumálum sem þeir segjast hafa?“
Jón Steinar vísar svo í nýlegar kannanir um fylgi Sjálfstæðisflokksins en óhætt er að segja að það hafi hrunið síðustu mánuði. Kosningar eru í nánd og segir Jón Steinar ýmislegt benda til þess að flokkurinn muni gjalda afhroð.
„Að mínum dómi kemur ekki annað til greina en að skipta gersamlega um kúrs og byggja kosningabaráttuna á þeim stefnumálum, sem við mörg héldum að þessi flokkur ætti að standa fyrir,“ segir Jón Steinar og fer svo ofan í saumana á umræddum stefnumálum. Nefnir hann til dæmis framkvæmdir við virkjanir, einkavæðingu heilbrigðisstofnana, skattalækkanir, átak í samgöngumálum, sölu á RÚV og endurbætur á menntakerfinu svo eitthvað sé nefnt.
„Það hlýtur svo að teljast nauðsynlegur þáttur í endurreisn flokksins að endurnýja í stórum stíl forystuna. Það er auðvitað augljóst að kjósendur geta ekki treyst núverandi forystumönnum til að hrinda ofangreindum verkefnum í framkvæmd. Framangreind stefnumið ber að setja fram með öflugum hætti í kosningabaráttunni sem fram undan er. Gera má ráð fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn muni þá allt að einu gjalda fyrir brot á stefnumálum sínum undanfarin ár. Þetta myndi hins vegar gefa fyrirheit um stuðning kjósenda þegar fram í sækir.“