Þetta sagði vestrænn embættismaður í samtali við Sky News. Ef þetta er rétt, þá er þetta í fyrsta sinn, svo vitað sé, að Kínverjar hafi látið Rússum vopn í té til að nota í stríðinu í Úkraínu.
Slík þróun er að vonum mikið áhyggjuefni fyrir úkraínska ráðamenn og vestræn stuðningsríki Úkraínu og mun auka enn á spennuna á milli Vesturlanda og kínverskra ráðamanna.
Talsmaður NATÓ sagði þessar upplýsingar „mikið áhyggjuefni“ og að bandamenn Úkraínumanna væru að „ræða málið“.
Sky News segir að talsmaður kínverska sendiráðsins í Lundúnum hafi aðspurður aðeins sagt „sendiráðið þekki ekki til málsins“ en bætti við að strangar reglur séu í gildi í Kína varðandi útflutning dróna sem og þá sérstaklega varðandi dróna, sem er hægt að nota til hernaðarnota.
Vestræn ríki hafa sakað Kínverja um að sjá Rússum fyrir tvínota vörum en þær er hægt að nota til hernaðarnota auk annarra nota. Meðal þessara vara eru hálfleiðarar, ratsjár og skynjarar. Allt eru þetta hlutir sem eru meðal annars notaðir í hergögn.