fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Hyggjast knýja á um íbúakosningu fyrst bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykki hana ekki

Kristinn H. Guðnason
Fimmtudaginn 3. október 2024 14:55

Coda Terminal er afar umdeilt verkefni í Hafnarfirði.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íbúar í Hafnarfirði sem berjast gegn Coda Terminal, niðurdælingarverkefni Carbfix sunnan við Vallahverfi, segjast ekki ætla að bíða þar til búið er að afgreiða málið í aðal-og deiliskipulagsvinnu bæjarins. Ef málið verði ekki sett í íbúakosningu hið fyrsta verði safnað undirskriftum til að knýja á um kosningu.

Þetta kemur fram í bréfi íbúa til bæjarráðs Hafnarfjarðar, sem fundaði í morgun. Bæjarráð hafði þann 22. ágúst tekið fyrir tillögu Jóns Inga Hákonarsonar, oddvita Viðreisnar, um íbúakosningu en hún var ekki samþykkt. Samtímis afhentu íbúarnir undirskriftir 6090 manns sem óskuðu eftir að framkvæmdin yrði stöðvuð eða að hún yrði send í íbúakosningu.

„Umfjöllun um þessa tillögu fór fram í bæjarráði þann 22. ágúst en fundargerð bæjarráðs vegna umræðunnar er mjög ábótavant og bæjarbúar engu nær um hver niðurstaða umræðunnar var eða hvar málið er statt,“ segir í bréfinu sem tveir íbúar sendu fyrir hönd hópsins.

„Við viljum ítreka þá áskorun og óska eftir því að Bæjarráð upplýsi bæjarbúa um hvort og hvenær farið verður í íbúakosningu um Coda Terminal verkefnið,“ segir í bréfinu. „Það er ljóst að við bíðum ekki þar til búið er að afgreiða breytingar á aðal – og deiliskipulagi og höfum við því hafið undirbúning fyrir söfnun undirskrifta íbúa Hafnarfjarðarbæjar. Ef bæjarstjórn hyggst ekki setja málið í íbúakosningu hið fyrsta, þá munum við nýta þá lagaheimild sem við höfum til að knýja fram íbúakosningu við fyrsta tækifæri. Íbúar geta ekki beðið miklu lengur eftir að bæjarstjórn taki ákvörðun um aðkomu íbúa Hafnarfjarðar að þessu risa verkefni.“

Íbúakosningar í Hafnarfirði

Samkvæmt lögum er hægt að knýja á um íbúakosningu með undirskriftum fjórðungs íbúa í viðkomandi sveitarfélagi. Í Hafnarfirði er það um 5 þúsund manns. Þetta var reynt árið 2020 þegar meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks seldi rúmlega 15 prósenta hlut í orkufyrirtækinu HS Veitum en tókst ekki.

Fordæmi eru fyrir íbúakosningum í Hafnarfirði. Árið 2007 felldu Hafnfirðingar fyrirhugaða stækkun álversins Alcan í Straumsvík með 50,3 prósentum gegn 49,7. Aðeins 88 atkvæðum munaði en kjörsókn var 76,6 prósent.

Íbúum haldið í óvissu

Jón Ingi lét bóka á fundinum í morgun að það væri mikilvægt að fá botn í málið. Íbúar ættu rétt á því að öll gögn yrðu lögð til grundvallar þannig að hægt væri að taka upplýsta ákvörðun.

„Það að ekki sjái í land varðandi fjárhagslegan ávinning Hafnarfjarðarbæjar er óásættanlegt,“ sagði Jón Ingi. „Það er óásættanlegt að halda íbúum í óvissu mánuðum og árum saman. Það er sjálfsögð krafa íbúa um að fá síðasta orðið í málinu og það er sjálfsögð krafa að halda þeim upplýstum. Vinna við breytingar á aðalskipulaginu þarf að ljúka hið fyrsta.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti
Fréttir
Í gær

Maðurinn sem ók á Ibrahim: „Skelfilegt að enda ferilinn svona“

Maðurinn sem ók á Ibrahim: „Skelfilegt að enda ferilinn svona“
Fréttir
Í gær

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“
Fréttir
Í gær

Ferðamenn í vandræðum í vitlausu veðri – Sjáðu myndirnar

Ferðamenn í vandræðum í vitlausu veðri – Sjáðu myndirnar