Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur og fyrrverandi alþingismaður og forsetaframbjóðandi er ekki hrifinn af hugmyndum um að byggður verði nýr flugvöllur í Hvassahrauni. Hann segir ljóst að hraun úr eldgosi geti náð inn á svæðið sem afmarkað hefur verið fyrir hugsanlegt flugvallarstæði en í skýrslu starfshóps um hina mögulegu flugvallarbyggingu er lögð áhersla á að eldgos útiloki ekki bygginguna.
Í samantekt um efni skýrslunnar á vef Stjórnarráðsins kemur að rannsóknir sýni að flugvallarsvæði í Hvassahrauni sé að mestu utan skilgreindra eldstöðvakerfa og líkur á gosupptökum á svæðinu taldar hverfandi. Svæðið sé ekki talið vera útsett fyrir hraunflæði lítilla gosa en eigi gos sér stað í eldstöðvakerfi Krýsuvíkur, næst svæðinu, bendi niðurstöður til þess að líklegt sé að hluti athugunarsvæðisins verði fyrir hrauni. Líkur á því minnki þó eftir því sem norðar kemur á svæðið. Ólíklegt sé að hraun renni yfir Reykjanesbrautina á þessu svæði en það sé þó ekki útilokað. Hverfandi líkur séu taldar á hraunflæði frá öðrum stöðum þar sem líklegt sé talið að gosop opnist.
Þetta er þó ekki nóg til að sannfæra Ara Trausta sem fjallar um málið í pistli á Facebook-síðu sinni:
„Ég er alls ekki sannfærður um gagnsemi flugvallar mitt í hraunbreiðum Reykjanesskagans og 5-10 kílómetra frá virku eldstöðvakerfi, þrátt fyrir enn eina skýrsluna – MIÐAÐ við annað sem er í boði hvað varðar varaflugvelli, Reykjavíkurflugvöll og jafnræði milli landsmanna – og vegna ÓVISSU um framvindu óróans á skaganum.“
Ari Trausti birtir síðan mynd sem sýnir kort af svæðinu og hvert hraun gæti runnið:
„Loftmynd af ungu Afstapahrauni (ljósgrátt) og afmörkun svæðis undir innanlandsflugvöll (blátt) og alþjóðaflugvöll (svart). Meðal- eða mikið hraunrennsli úr eldgosi í Trölladyngjukerfinu nær inn í báða rammana – allt eftir rúmmáli hrauns og goslengd.“