Landsbankinn hefur höfðað mál til að fá veðskuldabréf ógilt en ástæða stefnunnar er að frumrit bréfsins glataðist í meðförum bankans.
Þetta kemur fram í stefnu sem birt er í Lögbirtingablaðinu í dag.
Veðskuldabréfið var gefið út 2022 og var tryggt með 2. veðrétti í fasteign hjóna á Austurlandi og var upphafleg fjárhæð þess um 21 milljón króna.
Í dag hvílir bréfið hins vegar á 1. veðrétti fasteignarinnar. Skuldabréfið er óverðtryggt og ber breytilega íbúðalánavexti eins og þeir eru ákveðnir af bankanum. Skuldabréfið er til 40 ára með afborgunum auk vaxta á eins mánaða fresti.
Í stefnunni segir að Landsbankinn sé eigandi skuldabréfsins og kröfuhafi samkvæmt því. Frumrit bréfsins sé hins vegar glatað og hafi ekki fundist þrátt fyrir ítrekaða leit en það hafi tapast í meðförum bankans. Bankanum sé nauðsynlegt að fá dóm til ógildingar á bréfinu, svo hann geti neytt réttar síns samkvæmt hinu glataða skuldabréfi.
Það kemur hins vegar ekki fram í stefnunni hvort að þetta þýði að afborganir hjónanna af veðskuldabréfinu séu í uppnámi verði það ekki ógilt.
Landsbankinn höfðar málið fyrir Héraðsdómi Austurlands með vísan til laga um meðferð einkamála en málið verður tekið fyrir í næsta mánuði.