Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur komist að þeirri niðurstöðu að kona nokkur fái ekki sófaborð bætt sem kostaði á þriðja hundrað þúsund króna. Borðið sem er úr ónefndri steintegund brotnaði fljótlega eftir að vatnskanna var lögð ofan á það en skömmu áður hafði barn konunnar stigið upp á borðið. Vildi konan meina að borðið hefði augljóslega verið gallað en söluaðilinn andmælti því harðlega.
Í úrskurði nefndarinnar segir að konan hafi keypt sófaborðið í verslun söluaðilans í október 2023 og greitt fyrir það 215.042 krónur. Í kvörtun konunnar kemur fram að uppgefið verð fyrir borðið sé 252.990 krónur en þar sem um sýningarvöru hafi verið að ræða hafi hún fengið 15 prósent afslátt þrátt fyrir að sýnilega væri ekkert að borðinu. Þá hafi starfsmaður verslunarinnar flutt borðið heim til konunnar í eigin bifreið og notað einungis teppi sem vörn yfir borðinu.
Konan sagði að sonur hennar, sem vegur um 15 kíló, hafi stigið upp á borðið í eitt skipti og stuttu síðar hafi stór hluti af borðinu brotnað af þegar vatnskanna var lögð á borðið. Atvikið hafi gerst um tveimur mánuðum eftir kaupin á borðinu. Konan vísaði til þess að borðið sé gert úr steini sem eigi að þola mikla þyngd en afmáð hefur verið úr úrskurðinum um hvers konar stein var nákvæmlega að ræða.
Konan bætti því þar að auki við að borðið sé dýr vara sem eigi að endast í margar kynslóðir. Konan sagðist hafa rætt við verkfræðing sem hafi haldið því fram að steinninn eigi að geta haldið svo lítilli þyngd í stuttan tíma og að hann teldi líklegt að sprunga hafi verið í borðinu miðað við hvernig brotið hafi litið út. Þá vísaði konan jafn framt til þess að hún hafi haft samband við söluaðilann eftir að borðið brotnaði vegna þessa og sá starfsmaður sem hún hafi rætt við hafi verið viss um að borðið væri gallað. Hún hafi í kjölfarið gert kröfu um að fá nýtt borð eða að gert yrði við borðið á kostnað söluaðilans. Eigandi fyrirtækisins hafi hins vegar haldið því fram að borðið væri ekki haldið galla og ítrekað bent konunni á að leita í heimilistryggingu sína.
Í kjölfar þessara samskipta lagði konan fram kvörtun til kærunefndar vöru – og þjónustukaupa og krafðist þess að fyrirtækinu sem seldi henni borðið yrði gert að afhenda henni nýtt borð eða endurgreiða borðið að fullu.
Fyrirtækið hafnaði hins vegar kröfum konunnar alfarið og benti á að í samskiptum sínum við framleiðanda borðsins vegna málsins hafi sá síðarnefndi fullyrt að ekki væri um að ræða galla. Í því samhengi vísaði fyrirtækið til tölvupósts þar sem fram kemur að borðið sé úr steini sem þurfi að meðhöndla af varkárni en ítreka ber að afmáð hefur verið úr úrskurðinum úr hvers konar steini hið skemmda sófaborð er.
Í niðurstöðu kærunefndarinnar er vísað til þessara tölvupóstsamskipta söluaðilans og framleiðandans. Þar komi fram að meðhöndla þurfi umrædda tegund af steini af mikilli varkárni og að borðið þoli ekki að barn standi á því. Sömuleiðis komi þar fram að tjónið verði ekki bætt af hálfu framleiðandans.
Í niðurstöðunni segir að engin gögn hafi verið lögð fram sem bendi til að konunni hafi verið sérstaklega kynnt meðhöndlun steinsins. Aftur á móti bendir kærunefndin á að eðli málsins samkvæmt verði ekki litið svo á að sófaborð séu venjulega notuð til þess að stíga á eða að konan hafi mátt vænta þess að borðið myndi þola þunga 15 kílóa barns. Framlagðar myndir sýni að enginn stuðningur sé við hornið sem brotnaði af borðinu og að mati nefndarinnar sé ljóst að sá hluti borðsins sé sérstaklega viðkvæmur fyrir þunga. Nefndin hafði óskað eftir að konan legði fram skriflegt álit verkfræðingsins sem hún vísaði til í sinni kvörtun en hún varð ekki við því.
Nefndin sagði því að ekki hefði verið sýnt fram á að borðið sem konan keypti hafi verið gallað og hafnaði kröfum hennar.