Saksóknari í Bandaríkjunum hefur ákært fimm kínverska ríkisborgara fyrir að hafa logið að lögreglumönnum og eytt sönnunargögnum eftir að hafa tekið ljósmyndir af herstöð. Fjórir mannanna höfðu komið með flugvél frá Íslandi.
Samkvæmt fréttastofunni AP höfðu mennirnir tekið myndir af herstöðinni Camp Grayling í Michigan fylki í ágústmánuði árið 2023. Voru þeir gripnir glóðvolgir við þessa iðju um miðja nótt og lugu þá að þeir væru fjölmiðlamenn en tóku föggur sínar og fóru.
Við rannsókn málsins kom í ljós að þeir væru skráðir háskólanemar við Michigan háskóla. En bandarísk yfirvöld hafa fengið veður af því að kínverskir háskólanemar í Bandaríkjunum hafi sést taka ljósmyndir við hernaðarmannvirki áður og leikur grunur á að um njósnastarfsemi sé að ræða.
Einn af þeim var stöðvaður við landamæraeftirlit á Detroit flugvelli á leið til Suður Kóreu. Í fórum hans fundust myndir af hertrukkum, teknum þetta umrædda kvöld í ágúst 2023.
Hinir fjórir voru yfirheyrðir eftir að hafa komið frá Íslandi til Chicago. Þeir sögðust hafa verið við Camp Grayling þetta umrædda kvöld en það hafi verið til þess að sjá loftsteinadrífu.
Í fórum mannanna fundust samskipti á samfélagsmiðlinum WeChat þar sem kom í ljós að þeir höfðu sammælst um að eyða ljósmyndum af myndavélum og farsímum.