Steinþór Einarsson, sem er 37 ára gamall, hefur verið dæmdur, í Héraðsdómi norðurlands eystra, í átta ára fangelsi fyrir manndráp með því að stinga Tómas Waagfjörð til bana á Ólafsfirði í október árið 2022.
Það er Vísir sem greinir frá þessu.
Steinþór bar við sjálfsvörn. Hann sagði að Tómas hefði verið vopnaður og ráðist á sig að fyrra bragði og að vörn hans hafi ekki verið óhóflega mikil miðað við ofbeldið sem hann hafi orðið fyrir. Hélt Steinþór því fram að Tómas hafi komið með umræddan hníf á staðinn.
Kolbrún Benediktsdóttir sem var saksóknari í málinu tjáði DV eftir að réttarhöldunum lauk að full ljóst væri að Tómas hafi átt upptökin að átökunum en að Steinþór hafi farið út fyrir leyfileg mörk neyðarvarnar. Hún sagðist telja í ljósi aðstæðna rétt að fara niður fyrir lágmarks refsingu fyrir manndráp, sem er fimm ára fangelsi, eða jafnvel að fella refsingu alfarið niður. Það væri þó dómara að taka ákvörðun um það.
Dómurinn hefur ekki verið birtur á vefsíðu héraðsdómstólanna en ekki kemur fram í frétt Vísis hvaða rök voru færð fyrir því að dæma Steinþór í átta ára fangelsi.
Í samtali við DV sagði Snorri Sturluson, lögmaður Steinþórs, að þessi niðurstaða sé ekki í samræmi við væntingar þeirra. Hann eigi hins vegar eftir að lesa dóminn almennilega. Engu að síður telji hann líklegt á þessari stundu að málinu verði áfrýjað til Landsréttar.