Alls áttu 14 prósent landsmanna ekki pening fyrir jólunum. Einna helst var það fólk á fertugsaldri sem átti ekki fyrir þeim, 27 prósent. Færri hlökkuðu til jólanna en oft áður.
Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup.
Spurningarnar hafa verið lagðar fyrir svarendur Gallup undanfarin ár. Í fyrra áttu 9 prósent þeirra ekki fyrir jólunum og því hefur hlutfallið hækkað um 5 prósent á einu ári.
Yngra fólk átti síður pening fyrir jólunum en það eldra. 27 prósent fólks á fertugsaldri áttu ekki fyrir þeim og 19 prósent fólks á þrítugsaldri. Aðeins 6 prósent fólks á sjötugsaldri átti ekki fyrir jólunum og hlutfallið var lægst hjá eldri borgurum, 5 prósent.
34 prósent þeirra sem voru með fjölskyldutekjur lægri en 550 þúsund krónur á mánuði áttu ekki fyrir jólunum. Einnig 9 prósent þeirra sem eru með yfir 1,5 milljónir króna.
Fólk sem er aðeins með framhaldsskólapróf átti erfiðast með að á eiga fyrir jólunum, 19 prósent miðað við 7 prósent háskólamenntaðra.
Þegar svörin eru greind út frá stjórnmálaskoðunum kemur í ljós að 40 prósent kjósenda Sósíalistaflokksins áttu ekki pening fyrir jólunum og 32 prósent kjósenda Flokks fólksins. Þetta er langhæsta hlutfallið.
16 prósent kjósenda Viðreisnar átti ekki fyrir jólunum, 14 prósent Framsóknarmanna, 13 prósent Pírata, 9 prósent Sjálfstæðismanna og Samfylkingarfólks, 7 prósent Miðflokksmanna og 6 prósent Vinstri grænna.
57 prósent sögðust hlakka til jólanna, samanborið við 62 prósent í fyrra. Þetta er lægsta hlutfall sem Gallup hefur mælt til þessa.
Könnunin var netkönnun gerð 15. desember til 1. janúar. Úrtakið var 1.699 og svarhlutfallið 50,4 prósent.