fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fréttir

Langar þig að verða næsti forseti Íslands? – Þetta þarftu þá að vita

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 5. janúar 2024 19:30

Bessastaðir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýr forseti Íslands verður kjörinn í sumar, en sitjandi forseti, Guðni Th. Jóhannesson ætlar ekki að gefa kost á sér aftur. Framboðsfrestur rennur út í hádeginu þann 26. apríl, svo nægur tími er til stefnu til að leggjast undir feld og taka ákvörðun um mögulegt framboð.

En þú þarft að huga að ýmsu áður en haldið er af stað. Sem betur fer hafa nauðsynlegar upplýsingar verið teknar saman og verður gerð grein fyrir þeim helstu hér fyrir neðan.

Þegar hafa varaþingmaðurinn Arnar Þór Jónsson og athafnamaðurinn Ástþór Magnússon boðað framboð, en ljóst er að fleiri liggja undir feld og spennan magnast með degi hverjum.

Þeir mega bjóða sig fram sem hafa náð 35 ára aldri á kjördegi, eða þann 1. júní næstkomandi. Til að framboðið verði samþykkt þarf að safna meðmælum sem mega ekki vera færri en 1.500 og ekki fleiri en 3.000. Frá og með mars verður hægt að afla meðmæla rafrænt, en gamli hátturinn að nota pappír verður áfram í boði. Engu að síður eru frambjóðendur hvattir til að safna meðmælunum rafrænt.

Þegar nær dregur kjördegi auglýsir svo landskjörstjórn fyrirkomulag á móttöku framboða, en þeim þarf að skila ekki síðar en 36 dögum fyrir kjördag, eða í síðasta lagi klukkan 12:00 þann 26. apríl 2024.

Frambjóðandi þarf að fullnægja skilyrðum kosningaréttar til Alþingi að frátöldu búsetuskilyrði. Þar með þarf viðkomandi að vera íslenskur ríkisborgari.

Sá sem býður sig fram til embættis forseta Íslands, vitandi að hann skortir kjörgengi, má reikna með sekt. Fleiri aðstæður sem greindar eru í kosningalögum geta leitt til sekta svo sem ef forsetaefni reynir að múta fólki til að kjósa hann, gefur út villandi kosningaleiðbeiningar, kemur í veg fyrir að kjörgögn komist til skila eða tefur það, torveldar fólki sókn á kjörfund eða njósnar um kjósendur í kjörklefa.

Það telst svo meiriháttar brot ef forsetaefni falsar stuðningsyfirlýsingu, beitir þvingunarráðstöfunum eða breytir eða falsar kjörseðla. Þá gæti forsetaefnið þurft að sitja í allt að fjögur ár í fangelsi.

Tilkynning um framboð

Fyrir þann 26. apríl þarf frambjóðandi að tilkynna um framboð sitt með formlegum hætti. Það er landskjörstjórn sem tekur við tilkynningunni, en hana má senda með tölvupóst svo lengi sem frambjóðandi undirritar hana með fullnægjandi hætti.

Á þessari tilkynningu þarf að koma fram nafn frambjóðanda, lögheimili, kennitala og staða eða starfsheiti. Frambjóðandi þarf að gæta þess að skrifa nafnið sitt eins og það birtist í Þjóðskrá, nema hann sé sérstaklega þekktur með öðru nafni.

Eins þarf frambjóðandi að tilgreina umboðsmenn sína og gefa upplýsingar um hvernig má ná sambandi við þá.

Meðmæli

Frambjóðandi þarf að gæta þess að uppfylla lágmarkskröfur um fjölda meðmælenda, 1.500, en eins að lágmarksfjöldi þeirra komi í hverjum landsfjórðungi. Landskjörstjórn bíður enn eftir útreikningum Þjóðskrár um skiptingu fjölda eftir fjórðungum miðað við fjölda íbúa á landinu, en um leið og þær upplýsingar liggja fyrir verða þær birtar á upplýsingasíðunni Forsetakosninga 2024. Til samanburðar má horfa til þeirra reglna sem gilda um lágmarksfjölda meðmæla í sveitarstjórnarkosningum en þær eru eftirfarandi:

  • 10 meðmælendur minnst úr sveitarfélagi með 101-500 íbúa
  • 20 meðmælendur minnst úr sveitarfélagi með 501-2.000 íbúa
  • 40 meðmælendur minnst úr sveitarfélagi með 2.001-10.000 íbúa
  • 80 meðmælendur minnst úr sveitarfélagi með 10.001-50.000 íbúa
  • 160 meðmælendur minnst úr sveitarfélagi með 50.001 og fleiri íbúa.
  • Ekki þarf lágmarksmeðmæli úr sveitarfélögum með 100 eða færri íbúa.

Svo þarf að gæta að því að hver kjósandi má aðeins skrá sig á meðmælalista fyrir einn frambjóðanda. Ekki mega frambjóðendur sjálfir mæla með sér og ekki heldur fulltrúar í kjörstjórnum.

Meðmælum þarf að safna á eyðublöð þar sem fram koma upplýsingar um kjördag, heiti frambjóðanda, nafn sveitarfélags, nafn meðmælanda, kennitala meðmælanda og lögheimili. Eyðublöðin þarf að vera hægt að auðkenna með t.d. blaðsíðunúmeri. Að hámarki mega vera 20 meðmæli á hverri síðu.

Meðmælendur geta afturkallað samþykki sitt á meðan söfnun stendur og allt þar til framboð hefur verið afhent landskjörstjórn. Ef kjörstjórn telur meðmælalista gallaðan, svo sem að ekki sé þar að finna nægilega marga meðmælendur, þá fær frambjóðandi frest til að bæta úr eftir því sem tími og atvik leyfa. Kjörstjórn hefur aðgang að Þjóðskrá til að kanna lögmæti meðmælalista og Þjóðskrá er heimilt að veita frambjóðendum aðgang að meðmælendakerfinu í þeim tilgangi að skrá upplýsingar í þar til gert viðmót.

Frambjóðandi eða aðrir sem hafa aðgang að meðmælum, mega ekki miðla upplýsingum um þau til annarra en þeirra sem að lögum hafa rétt til þeirra.

Svo þarf að sjálfsögðu að huga að persónuvernd og frambjóðandi þarf að tryggja öryggi persónuupplýsinga meðmælenda sinna með hliðsjón af persónuverndarlöggjöfinni.

Frambjóðandi deyr og ágreiningsseðlar

Láti forsetaefni lífið áður en kosning fer fram, en eftir að framboðsfrestur er liðinn, má annað forsetaefni stíga inn í stað þess látna ef fullur helmingur meðmælenda hins látna er meðal meðmælenda nýja forsetaefnisins.

Það er svo landskjörstjórn sem úrskurðar um gildi framboðs, en ákvörðun stjórnar má skjóta til úrskurðarnefndar kosningamála. 30 dögum fyrir kjördag verður svo auglýst hvaða frambjóðendur standa þjóðinni til boða, en verði aðeins einn í framboði er hann rétt kjörinn forseti án þess að kosning fari fram.

Yfirkjörstjórnir kjördæma bera ábyrgð á talningu, hver í sínu kjördæmi. Ágreiningsseðlar, eða atkvæði sem yfirkjörstjórn og umboðsmaður frambjóðanda eru ósammála um, fara til landskjörstjórnar sem tekur ákvörðun um gildi þeirra. Landskjörstjórn auglýsir með 14 daga fyrirvara hvar og hvenær hún kemur saman til að yfirfara þessi þrætuepli og svo lýsa úrslitum kosningarinnar.

Náir þú kjöri

Laun forseta Íslands eru nokkuð góð. Þau taka breytingum í júlí á ári hverju og eru í dag rúmlega 3,5 milljónir á mánuði. Forseti hefur þar að auki ókeypis bústað, þ.e. Bessastaði, og þarf hvorki að borga fyrir rafmagn né hita. Allur útlagður kostnaður forseta vegna reksturs embættisins er greiddur sérstaklega úr ríkissjóð. Forseti hefur svo bíl og bílstjóra til afnota.

Því miður hafa þó áfengisfríðindin verið numin úr lögum, en áður þurfti forseti ekki að borga áfengisgjald.

Kostnaður af rekstri embættis forseta Íslands nam 360 milljónum árið 2022.

Þegar látið er af embætti hefur fráfarandi forseti rétt til áframhaldandi launa í sex mánuði, en þessi réttur fellur niður af fyrrum forseti tekur stöðu í þjónustu ríkisins og nýtur þar jafnhárra, eða hærri launa. Séu launin lægri eru þau dregin frá forsetagreiðslunum.

Uppfært: Upphaflega var því slegið hér fram að sömu lágmarkskröfur meðmæla í sveitarfélögum ættu við um framboð til embættis forseta Íslands. Það byggði á misskilningi blaðamanns. Hið rétta er að lágmarkskröfur eru gerðar um fjölda meðmælenda eftir landsfjórðungi en enn á eftir að klára útreikninga. Fréttinni hefur verið breint í samræmi við athugasemdir Landskjörstjórnar og biðst blaðamaður forláts. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Egill Þór er látinn

Egill Þór er látinn
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“
Fréttir
Í gær

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“
Fréttir
Í gær

Kvikmyndagerðarmaður auglýsir eftir uppljóstrara – „Ef þú býrð yfir upplýsingum sem snerta okkur öll…“

Kvikmyndagerðarmaður auglýsir eftir uppljóstrara – „Ef þú býrð yfir upplýsingum sem snerta okkur öll…“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íslenskur skurðlæknir vinnur við að bjarga slösuðum eftir árásina í Magdeburg

Íslenskur skurðlæknir vinnur við að bjarga slösuðum eftir árásina í Magdeburg