Í tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg kemur fram að nóg hafi verið að gera í dag hjá björgunarsveitum vegna verkefna tengdum veðri og ófærð, einkum á Suðurnesjum og Suðurlandi en þó víðar.
Verkefnum hafi fjölgað nokkuð þegar leið á daginn.
Verkefni dagsins hafi byrjað á Suðurnesjum og uppi á Ásbrú, í Reykjanesbæ, hafi verið þó nokkuð um að fólk festi bíla sína í slæmu skyggni. Um tíma hafi verið þó nokkuð um verkefni, þegar einn bíll hafi verið losaður hafi tveir setið fastir á sömu slóðum. Leiðin frá Fitjum upp að Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafi reynst mörgum erfið.
Á Suðurlandi hafi verið nokkuð um verkefni eftir því sem leið á daginn. Á Þingvallavegi hafi allmargir ferðalangar fest sig, sem og á Uxahryggjum. Einnig á Lyngdalsheiði og séu björgunarsveitir á svæðinu við að greiða úr þessu og meðal tækja sem nýtt séu við verkefnið sé snjóbíll.
Í Stykkishólmi hafi björgunarsveit einnig verið kölluð út en þar séu bílar fastir um allan bæ.