Lögregla hefur sent frá sér tilkynningu varðandi andlát sex ára barns í Kópavogi.
Í tilkynningunni kemur fram að tilkynning um málið hafi borist lögreglunni um hálfáttaleytið í morgun:
„Andlát sex ára barns í Kópavogi er til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en tilkynning um málið barst embættinu um hálfáttaleytið í morgun.
Lögreglan hélt þegar á vettvang, en barnið var látið þegar að var komið. Einn einstaklingur er í haldi vegna málsins.
Rannsókn málsins er á frumstigi og ekki verða veittar frekari upplýsingar að svo stöddu.“
DV greindi frá málinu í morgun. Samkvæmt heimildum DV voru sex lögreglubílar á vettvangi, þar af fjórir ómerktir. Svæðið umhverfis húsið var afmarkað með gulum borða í morgun en þau ummerki voru horfin löngu fyrir hádegi. Samkvæmt heimildum DV komu tveir sjúkrabílar á vettvang um áttaleytið í morgun.
RÚV greinir frá því að kona sé í haldi lögreglu vegna láts barnsins. Samkvæmt upplýsingum RÚV gengst konan undir geðmat í dag. Barnið var látið er lögregla kom á vettvang.