Körfuknattleiksdeild Ungmennafélags Grindavíkur (U.M.F.G) hefur sent velferðarnefnd Alþingis umsögn vegna frumvarps um breytingu á lögum vegna sértæks húsnæðisstuðnings vegna náttúruhamfaranna í bænum. Segir í umsögninni að frumvarpið eins og það líti út núna muni ekki gagnast deildinni að neinu ráði og að það stefni í að deildin sem og aðrar deildir innan ungmennafélagsins einfaldlega leggist af vegna fjárskorts.
Umsögnin er birt á heimasíðu Alþingis en þó raunar undir frumvarpi um stuðning við greiðslu launa í Grindavík en umsögnin á bersýnilega við frumvarpið um sértækan hússnæðisstuðning.
Í umsögn körfuknattleiksdeildarinnar kemur fram að frumvarpið taki ekki mið af félögum sem rekin eru með óhagnaðardrifnum sjónarmiðum og megi þar nefna félög sem eru á Almannaheillaskrá Ríkisskattstjóra. Umsögnin komi frá Körfuknattleiksdeild U.M.F.G en eigi þó við um æskulýðsstarf félagsins í heild.
Kostnaður vegna leigu á eignum hafi margfaldast hjá deildinni og hafi hún ekki sömu tækifæri og einstaklingar til að sækja um leigustyrk frá ríkinu. Körfuknattleiksdeildin eigi til að mynda eign sem fjármögnuð hafi verið með lántöku sem ekki sé hægt að frysta líkt og um íbúðalán sé að ræða.
Eins og aðrar körfuknattleiksdeildir félaga sem eiga lið í Subway-deildum karla og kvenna hefur deildin meðal annars þurft að leigja íbúðir fyrir erlenda leikmenn liðsins og sá kostnaður hefur hækkað eftir að ekki var hægt að útvega leikmönnunum húsnæði í Grindavík.
Í umsögninni segir að með yfirstandandi hamförum sé öll íþróttastarfsemi í Grindavíkurbæ í uppnámi. Deildir U.M.F.G lifi á góðvild annarra íþróttafélaga. Allar fjárhagsáætlanir hafi brostið, kostnaður hafi aukist til muna og tekjur hafi dregist saman á sama tíma. Þetta muni hafa í för með sér að deildir innan U.M.F.G muni lognast út af á skömmum tíma.
Er það því ósk körfuknattleiksdeildarinnar að tekið verði tillit til félaga á Almannaheillaskrá Ríkisskattsstjóra við afgreiðslu málsins.