fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Kona endaði þrisvar sinnum á spítala eftir óhóflegar lyfjaávísanir læknis

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 30. janúar 2024 20:00

Myndin tengist fréttinni ekki beint

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heilbrigðisráðuneytið hefur kveðið upp úrskurð í máli læknis sem vildi fá áminningu hnekkt sem hann hafði hlotið frá embætti landlæknis fyrir að ávísa óhóflegu magni lyfja við ADHD til konu, með þeim afleiðingum að hún þurfti að leggjast inn á sjúkrahús í þrjú skipti.  Læknirinn var einnig sagður hafa ávísað óhóflega miklu magni slíkra lyfja til sjö annarra sjúklinga. Ráðuneytið staðfesti áminninguna.

Um tildrög málsins segir í úrskurðinum að málið hafi fyrst komist í hámæli í nóvember 2021. Þá fékk landlæknisembættið tilkynningu frá læknum sjúkrahúss vegna lyfjameðferðar læknisins til handa konunni. Tilkynningin var ítrekuð tveimur vikum síðar þegar konan lagðist inn á sjúkrahús í alvarlegu ástandi. Hún hafði innbyrt mikið magn af örvandi lyfjum, sem notuð eru við ADHD, sem hún hafði fengið ávísað frá lækninum. Þetta var í þriðja sinn frá því um sumarið 2021 sem konan þurfti að leggjast inn vegna ofneyslu þessara lyfja. Í kjölfarið tilkynnti embættið lækninum að hafið væri eftirlitsmál gagnvart honum.

Tveir geðlæknar voru fengnir til að rannsaka þá meðferð sem læknirinn veitti konunni. Þeir gerðu margvíslegar og alvarlegar athugasemdir við þá heilbrigðisþjónustu sem læknirinn hafði veitt konunni á þriggja ára tímabili. Urðu niðurstöður sérfræðinganna að mati embættis landlæknis tilefni til að óska eftir frekari rannsókn á lyfjaávísunum læknisins til sjö annarra sjúklinga sem hann hafði veitt heilbrigðisþjónustu og ávísað mestu magni af ADHD-lyfjum , á árunum 2012 til 2022, auk umræddrar konu.

Var lækninum loks veitt áminning í mars 2023.

Megi ekki endurmeta faglegar ákvarðanir læknis

Í úrskurðinum kemur fram að læknirinn gerði margvíslegar athugasemdir við rannsókn geðlæknanna á þeirri meðferð sem hann veitti konunni meðal annars þær að áminningin væri óhóflegt úrræði.

Hann sagði geðlæknana hafa hvorki skoðað konuna né rætt við hann sjálfan til að fá skýringar á meðferðinni. Læknirinn sagðist ekki hafa fengið upplýsingar um innlagnir konunnar á sjúkrahús. Þá taldi læknirinn að af ákvæðum laga um landlækni og lýðheilsu megi draga þá ályktun að embættið megi ekki endurmeta faglegar ákvarðanir læknis vegna meðferðar einstakra sjúklinga.

Læknirinn gerði einnig athugasemd við að geðlæknarnir tækju ekki á móti sjúklingum á stofu eins og hann og væru því ekki hæfir til að rannsaka mál hans.

Landlæknir andmælti því að áminningin hefði verið óhófleg og brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Læknirinn hafi brotið alvarlega gegn skyldum sínum með þeirri háskammtameðferð sem hann hafi veitt konunni og sjö öðrum sjúklingum við ADHD. Tilefni hafi verið til að takmarka leyfi læknisins til að ávísa lyfjum en ákveðið að láta áminningu duga þar sem meðferð konunnar hafi verið flókin og til að veita lækninum tækifæri til að bæta ráð sitt.

Landlæknisembættið segir ekki hafa verið þörf á því að skoða konuna eða ræða beint við lækninn sjálfan við rannsókn málsins. Embættið hafi fullt leyfi til að leggja mat á meðferðir lækna ef grunur leiki á um að eitthvað sé ekki í lagi í störfum þeirra. Lækninum hafi einnig verið full kunnugt um að leggja hafi þurft konuna inn og að fyrir lægi álit geðlækna um að nauðsynlegt væri að draga úr notkun hennar á ADHD lyfjum. Geðlæknarnir hafi einnig verið fullfærir um að rannsaka málið þar sem þeir hafi báðir haft reynslu af því að taka á móti sjúklingum á stofu og haft fjölmarga sjúklinga í meðferð vegna ADHD.

Fékk lyfin nánast samfleytt í þrjú ár og neytti áfengis óhóflega

Í niðurstöðu Heilbrigðisráðuneytisins koma fram nánari upplýsingar um hversu óhóflegar lyfjaávísanir læknisins á ADHD-lyfjum til konunnar voru.

Læknirinn ávísaði slíkum lyfjum til konunnar nánast samfleytt í þrjú ár á meðan hún var í meðferð við ADHD. Andleg heilsa hennar var á sama tíma mjög slæm auk þess sem hún neytti áfengis óhóflega samhliða lyfjameðferðinni. Geðlæknarnir sem rannsökuðu málið gerðu alvarlegar athugasemdir við viðbrögð læknisins í kjölfar upplýsinga um innlögn konunnar inn á sjúkrahús og versnandi hags hennar bæði andlega og líkamlega. Virtist þeim læknirinn sýna viðbrögð gegn betri vitund. Gögn sýndu fram á læknirinn hafi vitað hvert ástand hennar væri og hún hefði þurft að leggjast inn.

Geðlæknarnir gerðu einnig alvarlegar athugasemdir við lyfjaávísanir læknisins til hinna sjúklinganna sjö. Í tilfelli þeirra allra hafi verið um margfalda hámarksskammta af örvandi lyfjum sem notuð eru við ADHD að ræða.

Landlæknir mat það sem svo að meðferð læknisins á konunni hafi verið verulega ámælisverð og haft í för með sér alvarlegar og víðtækar afleiðingar fyrir hana. Læknirinn hafi haldið áfram að ávísa háum skömmtum af örvandi lyfjum, sem notuð eru við ADHD, til konunnar þrátt fyrir versnandi ástand hennar og gegn beiðni sérfræðinga og embættis landlæknis um að hætta að ávísa eða minnka skammtana til konunnar.

Niðurstöður geðlæknanna hafi leitt í ljós að háskammtameðferð með ADHD lyfjum, sem læknirinn virtist aðhyllast og hafa beitt í tilfelli konunnar og hinna sjö sjúklinganna, sem væru mögulega fleiri, væri ámælisverð, óábyrg og viki verulega frá skammtaleiðbeiningum og viðteknum ávísanavenjum geðlækna og viðurkenndri meðferð á Íslandi. Eftirfylgni læknisins gagnvart þessum sjúklingum hafi einnig verið verulega ábótavant, ekki síst í ljósi þess mikla magns sem þeim hafi verið ávísað. Sömuleiðis hafi færslur læknisins í sjúkraskrár sjúklinganna sjö verið ófullnægjandi.

Ávísaði ítrekað yfir hámarksskammti

Tók ráðuneytið undir það með landlækni að geðlæknarnir sem rannsökuðu málið hafi ekki verið vanhæfir.

Ráðuneytið tók einnig undir með landlækni að geðlæknanir hafi haft reynslu af því að taka á móti sjúklingum á stofu og af því að veita sjúklingum meðferð við ADHD, m.a. með sömum lyfjum og læknirinn ávísaði til sjúklinga sinna.

Þar af leiðandi komst heilbrigðisráðuneytið að þeirri niðurstöðu að geðlæknarnir hafi verið vel hæfir til að rannsaka málið.

Ráðuneytið var einnig sammála landlæknisembættinu um að það hefði haft fullt leyfi til að skoða lyfjaávísanir læknisins til konunnar og hinna sjúklinganna sjö í ljósi þess að læknirinn hafi ítrekað ávísað til þeirra magni af ADHD-lyfjum sem hafi verið yfir hámarksskammti samkvæmt sérlyfjaskrá.

Niðurstaða geðlæknanna var þó sú að í ákveðnum tilfellum geti þurft að ávísa stærri skömmtum en hámarksskömmtum til sjúklinga. Sjúklingarnir sjö hafi ekki beðið heilsutjón og þótt eftirfylgni með þeim hafi ekki verið nægileg sé það niðurstaða ráðuneytisins að ávísanir til þessara sjö sjúklinga sé ekki tilefni til áminningar.

Öðru máli gegni um konuna sem þurfti að leggjast þrisvar inn á sjúkrahús.

Gerði engar breytingar þrátt fyrir augljósan skaða

Í niðurstöðu heilbrigðisráðuneytisins segir að þrátt fyrir afar flóknar aðstæður og margþættan vanda konunnar hafi læknirinn nánast frá upphafi meðferðar ávísað til hennar tvöföldum til þreföldum hámarksskömmtum af örvandi lyfjum, sem notuð eru við ADHD. Konunni hafi að eigin sögn liðið betur á skömmtunum og ekki þótt lægri skammtar hafa næga virkni. Andlegri heilsu konunnar hafi samt sem áður hrakað mikið á meðferðartímanum og hún líka ánetjast áfengi og drukkið það samhliða inntöku lyfjanna. Lækninum hafi verið fullkunnugt um það og að minnsta kosti eitt þeirra skipta þegar hún þurfti að leggjast inn á sjúkrahús.

Þrátt fyrir þetta hafi hann haldið áfram að ávísa lyfjunum í sama magni og áður til konunnar. Þörf hafi verið á aukinni eftirfylgni í ljósi þess að um allt að þrefaldan hámarksskammt hafi verið að ræða en hún hafi ekki verið til staðar. Hinar óhóflegu lyfjaávísanir hafi orðið til þess að andleg og líkamleg heilsa konunnar hafi beðið skaða af.

Þar að auki hafi vantað margar færslur varðandi breytingar á lyfjagjöf til konunnar sem og hinna sjö sjúklinganna í sjúkraskrár sem sé ámælisvert.

Það er því niðurstaða heilbrigðisráðuneytisins að vinnubrögð læknisins hafi verið ámælisverð. Lyfjaávísanir til konunnar hafi verið óhóflegar í skilningi laga. Hann hafi vanrækt skyldur sínar gagnvart konunni og brotið með því lög um heilbrigðisþjónustu. Hann hafi einnig vanrækt skyldur sínar gagnvart hinum sjö sjúklingunum.

Áminning embættis landlæknis stendur því óhögguð.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Höfuðkúpubrotnaði í stórfelldri líkamsárás

Höfuðkúpubrotnaði í stórfelldri líkamsárás
Fréttir
Í gær

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“
Fréttir
Í gær

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“