Tvær vinsælar útvarpskonur eru á meðal þeirra ellefu sem sagt var upp hjá Sýn fyrir skemmstu. Valdís Eiríksdóttir og Sigga Lund hafa báðar greint frá uppsögn sinni nýlega.
„Elsku vinir og hlustendur, ég kem hér inn til að staðfesta sögusagnirnar. Ég fékk sömuleiðis reisupassann í gær,“ segir Valdís í færslu á Facebook. „Ég hef s.s. látið af störfum hjá Bylgjunni/Sýn/365 eftir 9 ára platónskt ástarsamband.“
Valdís segir að það hafi verið plan hennar að hætta hvort eð er. Það er eftir viku á eigin forsendum.
„Ég ætla að skapa meira og leika mér og láta drauma mína rætast. Þið munuð heyra í mér á öðrum vettvangi fljótlega, en fyrst… smá frí,“ segir Valdís sem hefur verið þáttarstjórnandi í Bítinu.
Sigga Lund var með sinn eigin þátt á Bylgunni sem hét eftir henni.
„Ég fékk reisupassann í vikunni og starfa ekki lengur á Bylgjunni. Minna starfskrafta er ekki lengur óskað var mér tjáð,“ segir Sigga í færslu á Instagram. „Ég er líka bara svo þakklát fyrir þennan kafla sem er lokið. Hann var athyglisverður og mjög svo lærdómsríkur. Hann gaf mér færi á að vaxa heilan helling. Ég hlakka til næsta kafla, og þeysi af stað hvergi banginn. Ég hef aldrei verið betri og ég veit það, það er herslumunurinn.“