Eva Björk Benediktsdóttir, íþróttafréttakona hjá RÚV, óskar í færslu í Facebook-hópi íbúa vesturbæjar Reykjavíkur eftir upplýsingum um skemmdarverk sem framið var fyrir utan heimili hennar í gærkvöldi.
Í færslunni skrifar Eva að líklega á milli klukkan 20-22 hafi verið keyrt utan í tvo bíla sem stóðu við heimili hennar. Viðkomandi hafi ekið þegar í stað á brott í átt að byggingunni sem áður hýsti Hótel Sögu.
Ekki kemur fram í færslunni hvort Eva á sjálf annan bílinn en hún birtir myndir af öðrum bílnum sem ekið var utan í og þar má sjá að áberandi rispur eru á hurðinni þeim megin sem keyrt var utan í hann og spegillinn þar að auki brotinn.
Eva segir að aðilinn sem keyrði utan í bílana hafi skilið hluta af eigin bíl eftir. Viðkomandi hafi brotið annan spegilinn, sem sé rauður og orðið hafi eftir á staðnum, af sínum eigin bíl en Eva birtir með færslunni mynd af speglinum. Hún segir að spegillinn sé af Toyota, Citroen eða Peugeot bíl miðað við það sem standi inni í honum.