„Til að gera langa sögu stutta þá hafa foreldrar Guðmundar Sölva þurft að standa straum af kostnaði við þetta allt saman, en staðan er orðin sú að það er ekki til peningur fyrir þessu. Því leitum við til almennings um aðstoð,“
segir Katrín Auðbjörg Aðalsteinsdóttir um söfnun sem hún setti af stað í gær fyrir Guðmund Sölva Ármannsson. Guðmundur Sölvi er 14 ára og fæddur með tvíklofna vör og skarð allt aftur í mjúka góm (eða aftur í kok eins og það myndi kallast). Hann fór í sína fyrstu aðgerð tíu daga gamall en þá var gerð bráðabirgðalokun á vörinni á honum og varanleg lokun í desember sama ár.
DV fjallaði um mál Guðmundar Sölva fyrir rétt tæpu ári, þar sagðist móðir hans, Ragnheiður Sölvadóttir í viðtali við DV vera þreytt á 13 ára baráttu við kerfið.
Í samtali við DV segist Katrín hafa sett söfnunina af stað eftir að hafa rætt hana vel við Ragnheiði. Þær tengjast nokkuð vel eða eins og Katrín segir: „Ég er í stjórn skátafélagsins sem bæði Ragga og Guðmundur eru í. Börnin mín og Guðmundur eru saman í skátunum. Auk þess sem elsta dóttir mín var á leikskólanum hjá Röggu.
Sjálf á ég barn sem fæddist með klumbufót og ég hef aldrei þurft að borga neitt fyrir meðferð á fætinum, en það voru aðgerð, gifs og spelkur. Bara verulega sorglegt og fáránlegt að það sitji ekki allir við sama borðið. Börnin geta ekkert að því gert að þau fæðist með einhverja fæðingagalla,“ segir Katrín.
DV greindi frá því miðjan febrúar í fyrra að mæðgin hefur farið á fund Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra sem hefði lofað að ganga í að skoða þeirra mál. Ekkert hefur heyrst frá ráðherra síðan.
Sjá einnig: Guðmundur Sölvi gekk á fund Willum Þórs og afhenti honum gögn sín – „Pínu hissa á öllu þessu ferli“
Sjá einnig: Mál Guðmundar Sölva í biðstöðu – „Ég vil ekki þurfa að taka þennan slag lengur“
„Ragga sjálf er að bugast og þau þurfa bara aðstoð,“ segir Katrín. „Guðmundur Sölvi hefur farið samtals í 13 aðgerðir og þetta er hvergi búið. Hann þarf á miklum tannleiðréttingum að halda, það kostar slatta en sjúkratryggingar taka ekki þátt í þeim kostnaði. Einnig þarf hann að fara í frekari aðgerðir á kjálka sem er ekki niðurgreitt af sjúkratryggingum í hans tilfelli.“
„Hún Katrín kom þessu öllu af stað og á bestu MESTU þakkir fyrir,“ segir Ragnheiður í samtali við DV. Í gær sagði Ragnheiður frá því að fjölskyldan skuldar um 640.000 krónur vegna tannréttinga Guðmundar Sölva. „Ég fæ að greiða niður þessar 640 þúsund í 16 mánuði sem gera 40 þúsund per mánuð, og ef ég held áfram með hann í þessum tannréttingum þá safnast bara á reikninginn og það borgar sig ekki, við þurfum að lifa á einhverju líka! En ég vona að SÍ og heilbrigðisráðuneyti fari að girða sig í brók svo fleiri skarðabörn lendi ekki í þessu rugli. Ég bara get ekki meira því ég er buguð ásamt föður og syni.“
Katrín segir viðbrögð við söfnuninni hafa verið góð nú þegar og á innan við sólarhring eru komnar um 100.000 krónur inn á reikninginn.
Þeir sem vilja og tök hafa á að styrkja fjölskylduna gera lagt inn á neðangreindan reikning, sem er á nafni Katrínar:
Reikningur 0370-22-040390
Kennitala 010483-4849