fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Fréttir

Fimmtán mögulegir frambjóðendur í embætti forseta Íslands

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 2. janúar 2024 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðni Th. Jóhannesson tilkynnti nokkuð óvænt í nýársávarpi sínu að hann hygðist ekki gefa kost á sér til áframhaldandi setu á Bessastöðum. Guðni hefur verið forseti frá árinu 2016 og notið mikils trausts hjá almenningi. Nú þegar hafa ýmsir verið nefndir til sögunnar sem hugsanlegir arftakar Guðna.

DV tók að gamni saman lista yfir 15 einstaklinga sem hafa verið orðaðir við framboð. Enginn þeirra hefur þó gefið formlega til kynna að hann hyggist bjóða sig fram og er listinn því til gamans gerður.

Hugsanlega leynist næsti forseti Íslands á listanum en það er þó ekki óhugsandi að hann komi úr allt annarri og óvæntri átt. Nöfnin sem hér birtast eru ekki í neinni sérstakri röð.

Fannar Jónasson

Fannar hefur gegnt stöðu bæjarstjóra Grindavíkur með miklum sóma og var hann valinn maður ársins 2023 af hlustendum Bylgjunnar og Rásar 2. Fannar hefur staðið þétt við bakið á fólkinu sínu í Grindavík við afar erfiðar aðstæður og að margra mati hefur hann alla þá kosti að bera sem prýða góðan forseta.

Magnús Geir Þórðarson

Magnús Geir Þjóðleikhússtjóri hefur yfirgripsmikla reynslu úr íslensku atvinnulífi og nær jafnan árangri hvar sem hann stígur niður fæti. Magnús er á besta aldri, rétt tæplega fimmtugur, og býr yfir miklum persónuþokka.

Óttarr Proppé

Óttarr Proppé er kannski ekki nafn sem hefur verið áberandi í umræðunni um næsta forseta en hvers vegna ekki? Óttarr hefur reynslu úr íslenskri stjórnsýslu þar sem hann hefur setið í borgarstjórn, á Alþingi og verið heilbrigðisráðherra. Hann er einkar viðkunnanlegur, ávallt málefnalegur og gæti verið gott sameiningartákn þjóðarinnar.

Halla Tómasdóttir

Eðli málsins samkvæmt hefur nafn Höllu Tómasdóttur borið á góma en hún náði góðum árangri í forsetakosningunum 2016 og var ekki langt frá því að skáka Guðna. Hún hlaut 27,9% atkvæða á meðan Guðni fékk 39,1%. Halla þótti koma einkar vel fyrir í kosningabaráttunni og var með skýra sýn á hlutverk forsetans.

Dagur B. Eggertsson

Dagur B. Eggertsson mun hætta sem borgarstjóri Reykjavíkur síðar á þessu ári þegar Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, tekur við af honum. Dagur gæti vel hugsað sér að fara í forsetaframboð og yrði vafalítið ágætur forseti. Þó er spurning hvort hugur hans leiti frekar í landsmálin nú þegar flokkur hans, Samfylkingin, fer með himinskautum í skoðanakönnunum.

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir

Steinunn Ólína lá undir feldi fyrir forsetakosningarnar 2012 en ákvað að gefa ekki kost á sér þá. Síðan þá eru liðin tólf ár og Steinunn Ólína orðin eldri og reynslunni ríkari og ef til vill tilbúnari til að taka skrefið. Þeir sem þekkja til Steinunnar Ólínu vita að hún er réttsýn og með bein í nefinu og yrði eflaust landi og þjóð til sóma á Bessastöðum.

Gerður Kristný Guðjónsdóttir

Ýmsir hafa nefnt nafn Gerðar Kristnýjar þegar kemur að því að finna frambærilega kandídata á Bessastaði. Hún var orðuð við framboð árið 2012 og hefur í verkum sínum skrifað nokkuð um forsetaembættið. Gerður er óumdeild og býr yfir persónuþokka og gæti sómt sér vel í embætti forseta.

Stefán Eiríksson

Það væri hugsanlega rökrétt skref hjá Stefáni að fara í forsetaframboð. Hann ætlar ekki að halda áfram sem útvarpsstjóri þegar skipunartími hans rennur út og virðist hugur hans vera farinn að leita annað. Stefán er hokinn af reynslu þrátt fyrir að vera á besta aldri, 53 ára, og hann þekkir íslenska stjórnsýslu eins og handabakið á sér. Hann hefur í raun allt til brunns að bera að verða góður forseti.

Haraldur Þorleifsson

Haraldur Ingi Þorleifsson er maður fólksins og það þarf enginn að velkjast í vafa um að hann myndi sinna forsetastarfinu fyrir íslenskan almenning ef hann færi fram og næði kjöri. Hann er eldklár og hefur látið gott af sér leiða á undanförnum árum svo eftir hefur verið tekið.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Það eru liðin um fimmtán ár síðan Ingibjörg Sólrún hætti í stjórnmálum og hver veit nema hugur hennar leiti á Bessastaði eftir tíðindi gærdagsins? Ingibjörg Sólrún býr yfir gríðarlegri reynslu, bæði hér á Íslandi sem og erlendis, og er mikil keppnismanneskja sem lætur verkin tala. Það skal enginn útiloka það að Ingibjörg Sólrún verði arftaki Guðna.

Bjarni Benediktsson

Sá orðrómur hefur verið á kreiki lengi að Bjarni hyggist hætta sem formaður Sjálfstæðisflokksins áður en langt um líður. Gæti ekki framboð til forseta verið kjörin útleið fyrir hann? Hvað sem fólki finnst um Bjarna verður ekki af honum tekið að hann hefur leitt Sjálfstæðisflokkinn á erfiðum tímum og gert býsna vel og setið lengur sem formaður en sjálfur Davíð Oddsson.

Víðir Reynisson

Víðir Reynisson er landsmönnum að góðu kunnur og hann kann að koma fyrir sig orði þegar mikið liggur við – eins og sönnum forseta sæmir kannski. Víðir stóð í stafni sem yfirlögregluþjónn almannavarna í Covid-faraldrinum og síðan í þeim náttúruhamförum sem riðið hafa yfir Reykjanesið undanfarin misseri. Víðir er traustur og réttsýnn og ber ávallt hag almennings fyrir brjósti.

Lilja Alfreðsdóttir

Lilja Alfreðsdóttir er menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins. Nú þegar hefur verið skorað á Lilju að bjóða sig fram enda telja margir að kominn sé tími á öfluga konu í embættið. Lilja er sannarlega öflug eins og hún hefur sýnt í störfum sínum og býr yfir ákveðinni yfirvegun sem er nauðsynlegur eiginleiki í fari þjóðhöfðingja.

Ólafur Jóhann Ólafsson

Ólafur Jóhann hefur áður verið orðaður við forsetaframboð en hann nýtur mikilla virðingar í íslensku samfélagi, bæði sem vinsæll rithöfundur og ekki síður sem öflugur viðskiptamaður úti í hinum stóra heimi. Hvort Ólafur taki skrefið núna skal ósagt látið en hann myndi ef til vill sóma sér vel á Bessastöðum.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Þorgerður Katrín hefur mikla reynslu úr íslenskri stjórnsýslu eftir um tuttugu ár sem þingkona og ráðherra. Hún var varaformaður Sjálfstæðisflokksins en er nú formaður Viðreisnar þar sem hún veitir ríkisstjórninni gott aðhald í stjórnarandstöðu. Þorgerður er með gott jafnaðargeð en á sama tíma er hún ákveðin keppnismanneskja sem hefur marga góða kosti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“
Fréttir
Í gær

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum