Aðeins má veiða 800 hreindýr í ár, hundrað færri en í fyrra. Þetta er fimmta árið í röð sem hreindýrakvótinn er skorinn niður.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ákvað hreindýrakvótann fyrir árið 2024 í dag. Heimilt verður að veiða 397 kýr og 403 tarfa, samanlagt 800 dýr.
Árið 2023 voru gefin út 901 veiðileyfi, 1021 árið 2022, 1220 árið 2021, 1325 árið 2020 og 1451 árið 2019. Samanlagt hefur leyfum verið fækkað um 651 á þessum fimm árum.
Að sögn ráðuneytisins er skortur á gögnum helsta ástæðan fyrir því að kvótinn er skorinn niður í ár. Er það í kjölfar banaslyssins í Sauðárhlíðum síðasta sumar, þegar tveir starfsmenn Náttúrustofu Austurlands fórust í flugslysi ásamt flugmanni. Þau voru að starfa við hreindýratalningar.
Veiðitímabil tarfa verður frá 15. júlí til 15. september og kúa frá 1. ágúst til 20. september. Tekið er fram að óheimilt sé að veiða kálfa. Þá eru veturgamlir tarfar einnig alfriðaðir.
Veiðisvæðin eru níu sem fyrr. Heimildirnar eru veittar með fyrirvara um breytingar á stofnstærðum.