Hödd Vilhjálmsdóttir, almannatengill, hefur stigið til hliðar sem fjölmiðla- og samskiptastjóri forsetaframboðs Sigríðar Hrundar Pétursdóttir. Vísir greindi fyrst frá en í samtali við DV segir Hödd að ákvörðunin hafi verið tekin í mestu vinsemd. Sýn hennar og Sigríðar Hrundar á verkefnið hafi ekki verið sú sama og því hafi verið rétt að hleypa öðrum að. „Sigríður Hrund er yndisleg og ég óska henni alls hins besta í kosningabaráttunni,“ segir Hödd.
Sigríður Hrund, sem er fyrrum formaður FKA og eigandi fyrirtækisins Vinnupallar ehf., tilkynnti framboð sitt með pompi og prakt í fimmtugsafmæli sínu síðastliðinn föstudag. Auk tíðindanna af framboðinu rataði gleðskapurinn í fréttirnar vegna þess að sprengdir voru flugeldar í leyfisleysi í tilefni af tíðindunum.