„Það sem er líkt með atburðarásinni núna og þeirri sem var á tímum Kröflueldanna er að það kemur heil syrpa af gosum. Fyrsta umbrotahrinan var rétt fyrir jólin 1975 og þá verður heilmikið sig á Kröflusvæðinu, alveg um tvo metra, og síðan fór land að rísa og var að rísa alveg næstu 15 árin,“ segir Páll við Morgunblaðið.
Hann bendir á að þó að jarðfræðin sé ólík á þessum tveimur svæðum eigi atburðarásirnar tvær það sameiginlegt að skjálftavirkni er mikil í upphafi tímabils og gosvirkni lítil.
„Síðan snýst það við og eftir því sem það líður á atburðarásina er búið að losa meira um spennuna sem þýðir að skjálftarnir verða minni en jafnframt verða gosin stærri því stærri hluti kvikunnar kemst upp á yfirborðið. Við erum sennilega ennþá á tímabili lítilla gosa en samt má sjá að skjálftavirknin sem fylgdi þessu gosi var miklu minni en í gosinu 18. desember,“ segir hann meðal annars.