Heimili Vilhjálms og fjölskyldu hans er aðeins tveimur götum vestan við staðinn þar sem hraun rann inn í bæinn í gær.
„Þetta er bæði ógnvekjandi og mjög óraunverulegt og ég er dofinn yfir þessu,“ segir Vilhjálmur við Morgunblaðið í dag.
Þrátt fyrir gríðarlega óvissu meðal íbúa segist Vilhjálmur sannfærður um að byggð verði áfram í Grindavík þó bið verði á því. Hann segir að stjórnvöld verði að koma inn af krafti og aðstoða fólk við að finna sér húsnæði til lengri tíma.
Hann stingur meðal annars upp á því að fólk verði borgað út úr húsnæði sínu og því gefinn forkaupsréttur á því aftur þegar bærinn verður byggilegir. Þá væri hægt að veita ívilnanir, til dæmis að séreignarsparnaður verði ekki skattlagður þegar hann er tekinn út og stimpilgjöld afnumin.
„Við eyðum ekki óvissunni með náttúruna, en við getum eytt óvissu fólks hvað varðar húsnæðismál og fjárhag. Það verður líka að hafa svör fyrir fyrirtækin, svo þau flytji ekki varanlega á brott,“ segir hann við Morgunblaðið í dag.