Fannar var í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun þar sem hann fór yfir atburði síðasta sólarhrings. Var hann spurður hvort sprungan sem opnaðist í gær hefði stefnt að húsinu hans.
„Jú, það vill svo til að húsið sem ég bý í það er bara fyrir neðan hrauntauminn og það voru bara nokkrir metrar í girðinguna hjá mér. Ég átti ekki von á öðru þegar ég sofnaði um miðnætti að það yrði bara næst í röðinni. Svo gerist það að hættir að renna hraun þannig að það slapp sem og önnur hús sem voru þarna í hættu,“ sagði Fannar.
„Engu að síður er skelfilegt að þarna hafi þrjár fjölskyldur misst heimili sitt. Og ástandið er auðvitað þannig hjá okkur í Grindavík að innbú okkar nánast allt er eftir í húsunum þó að verðmætustu munir og þeir sem hafa mest tilfinningalegt gildi hafi verið fjarlægt. Að öðru leyti er búslóðin okkar í heilu lagi þarna og það er auðvitað bara forgengilegir munir en engu að síður er þetta mikið tilfinningalegt áfall þegar búslóðin fer í heilu lagi.“