Böðvar Ingi Guðbjartsson formaður Félags pípulagningameistara hefur ritað aðsenda grein á Vísi um húshitun til framtíðar á Íslandi. Tilefnið er yfirstandandi jarðhræringar á Reykjanesskaga og sú ógn sem orkuverinu í Svartsengi hefur stafað þeim. Greinin var birt síðastliðinn föstudag, áður en yfirstandandi eldgos hófst, en eins og kunnugt er hefur hraunflæði orðið til þess að bæði vatns- og rafmagnslaust er í Grindavík. Í grein sinni hvetur Böðvar til nýrrar nálgunar við hitun húsa á Íslandi.
Hann segir í greininni að Íslendingar hafi orðið vanir því að hafa stöðugan aðgang að jarðvarma til húshitunar og þótt hann sjálfsagður:
„Yfirstandandi jarðhræringar á Reykjanesinu og sviðsmyndir sem ógnað hafa rekstri orkuversins á Svartsengi hafa þó vakið fjölmarga pípulagningameistara til umhugsunar um hvernig við hönnum lagnakerfi.“
Hann segir að endurhugsa þurfi hönnun lagnakerfa í mannvirkjum sem nýta jarðvarma til húshitunar. Taka þurfi mið af því að orkuver geti lent í vanda:
„Með lítilli fyrirhöfn þarf að vera hægt að koma í veg fyrir að lagnir húsnæða frostspringi enda veldur slíkt gríðarlegu tjóni á mannvirkjum. Tækjarými framtíðarinnar í mannvirkjum ættu því að vera þannig útbúin að hægt verði að tengja við þau rafmagns- eða gashitakúta, olíu eða sambærilegu með lítilli fyrirhöfn.“
Böðvar segir að allar lagnir ættu að vera á lokuðum kerfum með frostlegi til að verja lagnir betur gegn frostskemmdum. Tækjarými í framtíðinni verði að vera þannig útbúin að auðvelt sé að skipta um orkugjafa ef starfsemi orkuvera skerðist.
Pípulagningameistarar, hönnuðir lagnakerfa og stjórnvöld þurfi að koma að því að endurskoða regluverk í þessum málum.
Grein Böðvars í heild sinni er hægt að lesa hér.