fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fréttir

Árna er alveg sama þó hann sé kallaður leiðinlegasti maður Íslandssögunnar

Ritstjórn DV
Mánudaginn 15. janúar 2024 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta er eins og að skvetta vatni á gæs,“ segir Árni Guðmundsson forvarnarsérfræðingur sem kallaður hefur verið leiðinlegasti maður Íslandssögunnar vegna uppátækis síns fyrir skemmstu.

Árni brá á það ráð fyrir skemmstu að kæra sjálfan sig til lögreglu eftir að hann keypti áfengi í smásölu úr íslenskri netverslun. Hann mætti í Bítið á Bylgjunni í morgun þar sem hann fór yfir málið og tildrögum þess að hann ákvað að kæra sjálfan sig.

Ekkert gerist

„Það er bara í raun og veru þannig að það er búin að vera ólögleg smásala áfengis um langa hríð, óáreitt,“ sagði Árni í viðtalinu og rifjaði upp að málið hafi farið fyrir dóm á sínum tíma.

„ÁTVR kærði tiltekna aðila fyrir ólöglega sölu og því máli var vísað frá vegna þess að ÁTVR var ekki aðili máls. Það var ekkert efnislega tekið á þessu máli, smásölu áfengis sem er orðin gríðarlega mikil. Síðan gerist það að ÁTVR óskaði eftir lögbanni á þessari sölu og því er líka hafnað af því það er ekki neyðarréttur, ekki neyðarástand; það eru ekki fjöll að hrynja eða náttúruhamfarir. Sýslumaður lítur á þetta sem einhvers konar aðgerð sem lögregla þarf að taka á og ýjar að því að þetta sé ólöglegt en það þurfi að fá meðferð lögreglunnar,“ sagði Árni sem bætti við að ÁTVR hefði kært  söluna og síðan séu liðin rúm tvö ár og ekkert gerist.

„Lögregla rannsakar ekki málið og á meðan er búið að búa til umræðu í samfélaginu um að erlend netsala sé lögleg og allt þetta, og það er komin einhvern „normalísering“ og það skeður ekki neitt,“ sagði Árni sem viðurkennir að þetta hafi fengið hann til að hugsa og íhuga hvað hann gæti eiginlega gert.

Fékk hann þá hugmynd að sennilega væri best fyrir hann að kæra sjálfan sig.

Skilvirkur flutningur

„Ég er algjörlega aðili máls, þetta kemur mér ákaflega vel við og ég ákvað að kaupa í tveimur íslenskum netverslunum íslenskar tegundir. Í öðru tilfellinu þá var pöntunin tilbúin eftir 45 mínútur og í hinu tilfellinu var bankað á dyrnar hjá mér eftir 25 mínútur.“

Árni bendir á að í báðum tilfellum hafi hann keypt íslenskar tegundir og í öðru tilvikinu tegund sem framleidd er á Norðurlandi.  Íslensku vörurnar þurfi að flytja út úr landinu með útflutningspappírum og síðan þurfi að taka á móti vörunni þar og afgreiða hana aftur til Íslands.

„Og þetta tekst allt saman á 30-45 mínútum. Þarna er einhver flutningatækni sem er öllum hulin nema kannski jólasveininum í Ameríku sem getur sett í mjög marga skó á hverri nóttu,“ sagði Árni.

Árni sagði aðspurður að lögregla hefði tekið honum vel en varðstjórinn sem tók á móti honum sennilega haldið að hann væri þátttakandi í árshátíðarmyndbandi lögreglunnar. Árni segir að málið hafi verið unnið ofan í lögregluna, áfengi hafi verið haldlagt og fyrir hafi legið einlæg játning og vilji til að ná sáttum og greiða sekt.

Alveg sama hvað fólki finnst um hann

Árni segir að ef menn séu ósáttir við áfengislöggjöfina sé það verkefni þingsins að breyta löggjöfinni. „Það er ekki verkefni áfengisiðnaðarins að byrja að selja áfengi í smásölu eins og enginn sé morgundagurinn.“

Árni segist bíða niðurstöðu lögreglu í málinu en um hálfur mánuður er síðan hann tilkynnti sjálfan sig.

Sem fyrr segir hefur Árni verið kallaður „leiðinlegasti maður Íslandssögunnar“ en það viðurnefni birtist meðal annars í umræðum á samfélagsmiðlinum X. Viðurnefnið hefur engin áhrif á Árna.

„Ég held að þarna séum við komin með gott dæmi um að þegar þú ert í opinberri umræðu, og menn eru búnir með nestið sitt, geta ekki farið í rökrænar eða einhverskonar heilbrigðar umræður, þá nota menn svona stimplun, niðrun. Þetta er eins og að skvetta vatni á gæs, ég er bara feginn. Þetta dregur athygli að málstaðnum. Mér er alveg sama hvað fólki finnst um mig,“ sagði Árni sem kvaðst una þessum titli vel.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óánægjualda vegna nafnsins á Pablo Discobar – Jón Bjarni segir merkilegt að vera slaufað í Kólumbíu

Óánægjualda vegna nafnsins á Pablo Discobar – Jón Bjarni segir merkilegt að vera slaufað í Kólumbíu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ákæran gegn Sigurði Fannari birt: Játar hvorki né neitar því að hafa banað dóttur sinni

Ákæran gegn Sigurði Fannari birt: Játar hvorki né neitar því að hafa banað dóttur sinni