„Hugur okkar allra er hér eftir sem hingað til með Grindvíkingum,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sem eins og aðrir landsmenn vaknaði við þau tíðindi að eldgos væri hafið og þetta sinn afar nærri Grindavík sem sé óhugnalegt að sjá. Í færslu á Facebook-síðu sinni segir forsætisráðherra að árvekni vísindafólks og Almannavarna sem réðust í rýmingu á Grindavík í nótt verði ekki þökkuð nægilega.
„Nú fylgist fólk með stöðunni í samhæfingarmiðstöðum í Reykjavík og á Reykjanesi og líkt og áður skiptir miklu máli að við fylgjum leiðbeiningum þeirra og leyfum þeim að stýra ferð. Grindvíkingar hafa síðustu vikur búið við stöðu sem fæst okkar munu skilja til fulls. Það er ólýsanlegt álag að búa við stöðuga óvissu og geta hvenær sem er átt von á eldsumbrotum í næsta nágrenni. Hugur okkar allra er hér eftir sem hingað til með Grindvíkingum,“ skrifar forsætisráðherra.