Íslenskur maður greinir frá því á samfélagsmiðlum að fyrrverandi kærasti móður hans hafi boðist til að ættleiða hann. Hann segist þó óviss þar sem þessi fyrrverandi kærasti hafi ekki alltaf verið sá besti í fjármálum og hann óttist að taka á sig skuldir.
„Fyrrum kærasti móður minnar er kominn á aldur og er að byrjaður að ganga frá erfðaskrá. Hann bauðst til að ættleiða mig svo ég ætti jafnmikinn rétt á arfinum hans eins og hálf-systkini mín,“ segir maðurinn.
Hann segist vera að íhuga málið út frá fjárhagslegu sjónarmiði og sé ekki búinn að taka ákvörðun.
Í færslunni segir hann að þessi fyrrverandi kærasti móður hans hafi ekki alltaf verið sá besti þegar komi að fjármálum. Hann hafi komið sér upp nokkrum skuldum og hafi átt erfitt með að spara peninga.
Hins vegar eigi hann nokkrar eignir. Meðal annars hlut í nýju húsi með kærustu sinni og iðnaðarhús. Honum skiljist að búið sé að gera upp flestar skuldirnar. Aðeins liggi eftir einhver hluti af húsnæðislánum.
„Frá tilfinningalegu sjónarmiði þá er ég opinn fyrir þessu. Ég lít á hann sem föður minn og hann er búinn að vera partur af mínu lífi síðan ég man eftir mér,“ segir maðurinn sem leitaði ráða hjá öðrum netverjum. Það er hvort það sé eitthvað sem hann ætti að kanna eða spyrja að út frá fjárhagslegu sjónarmiði áður en hann tæki ákvörðun. „Vill ekki enda að erfa bara einhverjar skuldir,“ segir hann.
Lögin eru skýr hvað þetta atriði varðar og málið er skýrt vel í svari Sigurðar Guðmundssonar, skipulagsfræðings hjá Þjóðhagsstofnun, á Vísindavefnum við spurningunni: Erfast skuldir frá foreldrum?
Í svarinu kemur fram að skuldir erfast ekki sjálfkrafa. Aðeins réttindi erfast. Því sé ekkert að óttast fyrir lögerfingja þegar stórskuldugt foreldri deyr.
Skipti dánarbús, annað hvort einkaskipti eða opinber skipti, fara þannig fram að komist er að því hverjar eignir og skuldir viðkomandi séu. Eignunum er komið í verð, skuldirnar greiddar og afganginum, ef einhver er, er skipt á milli erfingja.
Þó geta erfingjar einnig lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum dánarbús, og þannig tekið við bæði eignum og skuldum. Er það kallað skuldaviðgöngubú.
„Erfingjum er hins vegar ekki skylt að taka við búi þar sem skuldir arfleifanda eru meiri en eignir, og reyndar er erfingjum yfirhöfuð ekki skylt að gangast við búi, en þeim er það hins vegar frjálst,“ segir í svarinu.