Heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Austurlands var vitni að því þegar ferðamaður gerði þarfir sínar bak við verslunarmiðstöðina á Djúpavogi. Íbúar kvarta sáran yfir sóðaskap.
Verslunarmiðstöðin á Djúpavogi og bensínstöð N1 sem við hana stendur hefur verið nokkuð til umfjöllunar fjölmiðla. Ekkert salerni er í verslunarmiðstöðinni og nokkur gangspölur í næsta almenningssalerni.
Ferðamenn sem stöðva til þess að taka olíu á stöðinni gera ráð fyrir að finna salerni. Þegar þeir finna það ekki láta þeir gossa við stöðina eða á bak við verslunarmiðstöðina. Hafa íbúar lýst yfir óánægju með stæka hlandfýlu á staðnum.
Sveitarstjórn hefur þrýst ítrekað á N1 og fyrirtækin í verslunarmiðstöðinni að koma upp salernisaðstöðu en þau hafa neitað. Þetta eru Landsbankinn, ÁTVR, Íslandspóstur og Samkaup.
Ýmislegt hefur verið reynt til að koma í veg fyrir að ferðamenn láti vaða við húsið. Meðal annars að setja upp eftirlitsmyndavélar. Hefur það engu skipt.
Sveitarstjórn hefur nú ákveðið að bensínstöðin verði færð. Búið er að ákveða að finna nýja staðsetningu í nýju aðalskipulagi og er sú vinna að hefjast. Að sögn Inga Ragnarssonar, sem situr í heimastjórn Djúpavogs, mun sú vinna hins vegar taka tvö eða þrjú ár.
Engu að síður er áfram þrýst á fyrirtækin í verslunarmiðstöðinni að opna almenningssalerni í húsinu. Hins vegar er vandamálið það að þrátt að verslunarmiðstöðvar séu starfsleyfisskyldar þá er ekki til nein skilgreining á verslunarmiðstöð í lögum.
„Eins og við skiljum það er ekki skilgreint hvað verslunarmiðstöð er. Það segir ekkert um hvað eigi að vera í verslunarmiðstöð þó það sé starfsleyfisskylt,“ segir Ingi sem finnst þetta skrýtið.
Heimastjórn sendi erindi til Heilbrigðiseftirlits Austurlands í apríl síðastliðnum til að fá úr því skorið hvort fyrirtækjunum væri ekki skylt að sjá viðskiptavinum sínum fyrir salernisaðstöðu í húsnæði eins og þau eru í.
Í svarinu kom fram að tvær verslanirnar væru starfsleyfisskyldar, Samkaup og ÁTVR, og hafi gild starfsleyfi. Í hvorugri versluninni sé hins vegar skylt að hafa salerni fyrir viðskiptavini.
„Í verslunarmiðstöðvum skulu gestir eiga greiðan aðgang að salernum skv. starfsleyfisskilyrðum. Leitað var álits Umhverfisstofnunar hvort umrætt verslunarhúsnæði gæti flokkast sem verslunarmiðstöð. Fengust þau svör að ekki sé til skilgreining á verslunarmiðstöð í íslenskum lögum og því ekki hægt að álykta um skilgreiningu á umræddu húsnæði,“ segir í bréfinu.
Fram til þessa hafa einungis stærri verslunarhúsnæði fengið sérstakt starfsleyfi sem verslunarmiðstöð, eins og Kringlan og Smáralind.
Heilbrigðiseftirlitið hefur fengið kvartanir vegna óhreinlætis við lóð verslunarmiðstöðvarinnar. Fólk gerir þarfir sínar og notar grænt svæði við lóðina til þess.
„Heilbrigðisfulltrúi hefur verið vitni að því þegar ferðamaður gerði þarfir sínar bak við húsnæðið og staðfest hefur verið óhreinlæti á græna svæðinu,“ segir í bréfinu.
Í reglugerð um hollustuhætti segir að í eða við hverja byggingu þar sem fólk hefst við að jafnaði skuli koma fyrir hæfilegum fjölda salerna. Það á klárlega við í þessu tilfelli og telur Heilbrigðiseftirlitið því æskilegt að hafa salerni aðgengilegt fyrir viðskiptavini.
Þó að fyrirtækin hafi hingað til neitað að koma upp slíkri aðstöðu segir Ingi ekki útséð með það.
„Þau eru að reyna að koma til móts við okkur. Það er verið að vinna í því en óvíst hvað kemur út úr því,“ segir hann.