Hjálmar var formaður félagsins um árabil og reyndist félagsmönnum vel, en ástæða uppsagnarinnar er ágreiningur hans við Sigríði Dögg Auðunsdóttur, formann félagsins.
Í samtali við DV í gær sagði Sigríður að vilji hafði staðið til þess innan stjórnar frá því í maímánuði að ráða nýjan framkvæmdastjóra en bjóða Hjálmari, sem er 67 ára, annað starf á skrifstofunni. Í þessu ferli hafi hins vegar komið upp trúnaðarbrestur og stjórnin því ákveðið að segja honum upp störfum.
Sjá einnig: Hjálmar kannast ekki við trúnaðarbrest – Segist hafa vakið máls á skattamálum Sigríðar síðan í fyrrasumar
Hjálmar kvaðst aftur á móti ekki kannast við trúnaðarbrest en hann hins vegar rætt skattamál Sigríðar innan veggja félagsins síðan í fyrrasumar. Lýtur umrætt mál að tekjum útleigu íbúða á Airbnb sem ekki voru talin fram til skatts og endurálagning lögð á.
Hjálmar var blaðamaður á Morgunblaðinu lengi vel og er afar vel liðinn í Hádegismóum. Þar á bæ ríkir ósætti við meðferðina á honum.
Björn Bjarnason, sem var blaðamaður og aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins á sínum tíma, gerði uppsögn Hjálmars að umtalsefni á Facebook-síðu sinni í gær.
„Það hlaut einhverjum meðal blaðamanna að verða nóg boðið og krefjast þess að forysta félagsins gerði hreint fyrir sínum dyrum og tæki afleiðingum gjörða sinna. Að ríkisútvarpið taki þátt í þessum leik með þögn sinni er ömurleg aðför að tilvist þess,“ sagði Björn og tóku núverandi og fyrrverandi blaðamenn Morgunblaðsins undir.
„Þjóðnýting/ríkisnýting Blaðamannafélagsins,“ sagði Stefán Einar Stefánsson blaðamaður í athugasemd við færslu Björns.
Marta María Winkel, ritstjóri Smartlands, lagði einnig orð í belg og sagði:
„Þetta félag er alveg goslaust og merkilegt að félagar þess láti bjóða sér upp á ruglið sem þarna er í gangi. Sérstaklega ‘rannsóknar’ blaðamennirnir!“
Blaðamaðurinn Hallur Hallsson er sár yfir brotthvarfi Hjálmars frá Blaðamannafélaginu.
„Við Hjálmar unnum saman á Mogganum í den; sérlega vandaður maður. RÚV fer úr einum forarpytti í annan. Það er hneyksli að Sigríður Dögg starfi sem fréttamaður. RÚV er sjálfstætt vandamál í íslensku samfélagi …“
Einn benti svo á að ekki hafi verið minnst einu orði á málið í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi. Það kom Birni ekki sérstaklega á óvart.
„Dæmigert. Ætli Sigríður Dögg verði kölluð í þriðju gráðu yfirheyrslu í Kastljósi um skattamál? Formaður og framkvæmdastjóri sjálfs blaðamannafélagsins,“ sagði ráðherrann og aðstoðarritstjórinn fyrrverandi.
Sigríður Dögg er komin í launalaust leyfi frá störfum sínum hjá RÚV, eða þar til gengið hefur verið frá ráðningu á nýjum framkvæmdastjóra. Formannskjör fer fram á næsta aðalfundi Blaðamannafélagsins og ætlar Sigríður Dögg að sækjast eftir endurkjöri.
Herma heimildir að í Hádegismóum sé nú leitað logandi ljósi að heppilegum frambjóðanda gegn Sigríði Dögg og búast megi við hörðum kosningaslag.